Innlent

37 ferðatöskur af ostum

Dieter Roth
Dieter Roth
Bandaríski fjölmiðillinn New York Times fjallar um feðgana Dieter og Björn Roth í tengslum við sýninguna „Dieter Roth. Björn Roth," sem verður opnuð í næstu viku í New York.

Rætt er við Björn sem ásamt sonum sínum Oddi og Einari hefur unnið hörðum höndum að því að gera allt klárt fyrir sýninguna undanfarin mánuð. Farið er fögrum orðum um Roth-fjölskylduna og meðal annars rifjuð upp fyrsta sýning Dieter í Los Angeles árið 1970 sem var allsérstök.

„Hann fyllti 37 ferðatöskur með ostum af ýmsu tagi og leyfði náttúrunni að hafa sinn gang. Fyrst mættu flugurnar á svæðið, þvínæst maðkarnir og loks heilbrigðisyfirvöld," segir í umfjöllun bandaríska vefmiðilsins.

Dieter var þekktur fyrir að að skapa list úr hlutum sem fólk er vanara að leggja sér til munns. Má nefna súkkulaði, pylsur og osta sem dæmi. Björn er sagður lifandi eftirmynd föður síns Dieter sem lést árið 1998. Björn og Dieter störfuðu mikið saman en Björn segist ekki reyna að fylgja í fótspor hans.

„Ég þykist ekki vera Dieter. Hann var snillingur og þeir eru sjaldgæfir. Ég læst ekki vera á sama stalli og hann var. En þetta er líf okkar og ég held að það sé hægt að fylgja sumum hlutum betur eftir," segir Björn í viðtali við New York Post.

Dieter Roth fæddist í Þýskalandi 1930, ólst upp í Sviss en elti Sigríði Björnsdóttur til Íslands árið 1957. Þar eignaðist hann börnin Karl, Björn og Veru.

Umfjöllun New York Times um Roth-fjölskylduna má lesa hér. Þá má sjá myndasyrpu frá undirbúningi sýningarinnar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×