Innlent

Steingrímur segir glundroðakenninguna ekki ganga upp

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra segir að ríkisstjórninni hafi tekist að lyfta grettistaki á sviði ríkisfjármála. Tekist hafi að ljúka því verki í aðalatriðum þegar fjárlagafrumvarpið og tekjuöflunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar var klárað fyrir jól.

Kjörtímabilinu lýkur í vor og Steingrímur sagði í Kryddsíldinni í gær að kjörtímabilið hefði einkennst af verkefnum sem séu ólík þeim verkefnum sem nokkur ríkisstjórn hafi þurft að fást við í síðari tíma stjórnmálasögu. „Þegar menn eru að bera okkur og þessi fjögur ár saman við aðrar ríkisstjórnir þá er sá samanburður ekki marktækur nema menn hafi það í huga að það hefur engin ríkisstjórn þurft að takast á við hluti sambærilega þessari," sagði Steingrímur.

Þá sagði Steingrímur að þegar sjálfstæðismenn ræddu glundroðakenninguna, sem gengur út á það að vinstri stjórnir geti ekki starfað saman heilt kjörtímabil, þá mættu þeir hafa í huga að tvær síðustu ríkisstjórnir sem hafa gefist upp á verkefnum sínum innan kjörtímabils hafi verið leiddar af Sjálfstæðisflokki. Þetta hafi verið ríkisstjórnir Þorsteins Pálssonar og Geirs H. Haarde „En við Jóhanna Sigurðardóttir erum hér enn og ætlum að klára kjörtímabilið og erum við þó búin að takast á við verkefni sem eru ósambærileg öllum þeim sem tekist hefur verið á við í síðari tíma stjórnmálasögu," sagði Steingrímur.

Kryddsíldin er núna komin á Vísi. Smelltu hér til að horfa á fyrri hluta og hér til að smella á seinni hluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×