Innlent

Sérfræðingar tefja rannsókn í manndrápsmáli

Fangaklefi á Litla Hrauni
Fangaklefi á Litla Hrauni

Lögreglan á Selfossi er enn að rannsaka andlát fanga á Litla Hrauni í vor en þeir Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson eru grunaðir um að hafa veitt fanganum áverka sem drógu hann til dauða. Þeir sátu um tíma í einangrun vegna málsins.



Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir að rannsóknin standi enn yfir og að lögreglan bíði eftir niðurstöðum úr skýrslum sérfræðinga. Niðurstöður úr krufningunni hafa borist til lögreglunnar, en hann vill ekki tjá sig um það. Málið er rannsakað sem manndrápsmál.



Spurður hvers vegna rannsóknin taki svona rosalega langan tíma, segir hann, að lögreglan sé bara að bíða eftir gögnunum frá sérfræðingunum - það sé ekkert sem hún geti gert til að flýta rannsókninni. „Þetta er allt í vinnslu en ég treysti mér ekki til að tjá mig um það hvenær þessu lýkur. Við getum hinsvegar sagt að það fari að styttast í niðurstöðurnar," segir hann.



Það var um miðjan maí sem Sigurður Hólm Sigurðarson, fjörutíu og níu ára gamall, fannst látinn í fangaklefa á Litla Hrauni en hann hafði komið þangað inn degi áður. Ekki var talið að dauða hans hefði borði að með saknæmum hætti þar sem engir ytri áverkar voru á líki hans.



Bráðabirgðaniðurstaða úr krufningu leiddi hinsvegar í ljós að Sigurður lést af völdum innvortis blæðinga og að áverkarnir bentu eindregið til þess að hann hafi orðið fyrir árás.



Í Fréttablaðinu þann 23. maí kom fram að um leið og þetta var ljóst var kannað hverja Sigurður hafði umgengist áður en hann lést. Annþór og Börkur voru færðir í einangrun, grunaðir um að hafa veitt Sigurði áverkana sem drógu hann til dauða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×