Innlent

Slakað á skóeftirliti - verður handahófskennt héðan frá

Nú þurfa ekki lengur allir farþegar á Keflavíkurflugvelli að fara úr skóm við vopnaleit líkt og tíðkast hefur um árabil samkvæmt ferðavefnum Túristi.

Vefmiðillinn hefur margsinnis bent á að eftirlitið hér á landi sé einstakt því í Evrópu láta öryggisverðir handahófskennt eftirlit með skóm duga, og í Bandaríkjunum þurfa börn og eldri borgarar ekki að klæða sig úr skónum.

Í kjölfar umfjöllunar Túrista gaf Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, út yfirlýsingu um að reglurnar hér á landi yrðu endurskoðaðar.

Niðurstaðan liggur fyrir því samkvæmt nýju svari Isavia, rekstaraðila flugvallarins, til Túrista þá verður hér eftir hætt að skoða skó allra farþega og slembiúrtak látið duga.

Það verða sennilega margir sem gleðjast yfir þessari stefnubreytingu því samkvæmt lesendakönnun síðunnar þótti þremur af hverjum fjórum eftirlitið hér á landi of strangt.

Niðurstöður bandarískrar rannsóknar sýna jafnframt að ekkert öryggisatriði pirrar farþega jafn mikið og skóeftirlitið alræmda. Hægt er að nálgast könnunina og greinina hér fyrir ofan í heild sinni á heimasíðu túrista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×