Innlent

Fær ekki að bera nafn afa síns

BBI skrifar
Magnús Ninni Reykdalsson ásamt syni sínum og barnsmóður.
Magnús Ninni Reykdalsson ásamt syni sínum og barnsmóður. Mynd/RS
Það eru margir sem standa í stappi við mannanafnanefnd vegna nafna sem nefndin telur ekki hæfa ungum börnum. Magnús Ninni Reykdalsson var gestur útvarpsþáttarins Reykjavík Síðdegis þar sem hann lýsti átökum sínum við nefndina vegna sonar síns.

Magnús vildi skíra son sinn í höfuðið á föður sínum sem bar nafnið Reykdal. Fyrst í stað datt honum ekki annað í hug en nafnið væri leyft enda gat hann bent á nokkur dæmi um að menn hefðu borið nafnið Reykdal gegnum tíðina, m.a. föður sinn. Annað kom þó á daginn.

„Við ákváðum við fæðingu í mars 2010 að nefna strákinn og nefndum hann strax Reykdal Máni Magnússon," segir Magnús. „Þegar við ætluðum að fara að skíra nokkrum mánuðum síðar benti presturinn okkur á að kanna hjá mannanafnanefnd hvort nafnið Reykdal væri leyfilegt."

Mannanafnanefnd hafnaði umsókn þeirra um nafnið á þeirri forsendu að það endaði á -dal.

„Þeir hefðu hins vegar samþykkt -dalur. Ekkert vesen," segir Magnús. „Það sem okkur fannst skrítið var að stuttu síðar var nafnið Kjarval samþykkt. Þá spyr ég: Hver er munurinn á -val og -dal?" bætir hann við.

Magnús taldi í þættinum upp nokkur dæmi þess að menn hefðu verið skírðir Reykdal í gegnum tíðina. „En núna, væntanlega eftir síðustu breytingar árið 1996 hafa þeir ákveðið að eiginnöfn megi ekki enda á -dal," segir Magnús.

Málið er núna statt hjá Ögmundi Jónassyni. „Ég sendi honum póst í maí og fékk þau skilaboð að það ætti að skoða málið í ráðuneytinu," segir Magnús en hefur ekki heyrt neitt síðan.

Sonur Magnúsar er því skráður Drengur í þjóðskrá. „Hann er einn af þessum hundrað Drengjum í þjóðskrá. Mér skilst það séu hundrað Drengir og hundrað Stúlkur. Þau standa líkalega öll í svipaðri baráttu," segir Magnús.

„Það er okkur hjartans mál að hann fái að heita Reykdal," segir Magnús og bætir við að málið leggist þungt á foreldrana. „Okkur finnst ekki að mannanafnanefnd eigi að ákveða hvað barnið okkar á að heita.

Viðtalið við Magnús í heild sinni má nálgast á hlekknum hér að ofan.

Skemmst er að minnast baráttu Bjarkar Eiðsdóttur, ritstjóra Séð og Heyrt, og dóttur hennar um nafnið Blær. Baráttan hefur vakið umtalsverða athygli um allan heim, en stúlkan færi ekki að heita Blær og hefur höfðað mál gegn innanríkisráðherra vegna þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×