Innlent

Sex ára börn borða of lítið af grænmeti, ávöxtum og fisk

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Mikilvægt er að leita leiða til að bæta mataræði íslenskra barna samkvæmt landskönnun en sex ára börn hér á landi borða of lítið af grænmeti, ávöxtum, fisk og lýsi miðað við ráðlagðan dagskammt. Þá er dagleg fæða barnanna of næringarlítil.

Þetta kemur fram í rannsókn Ingibjargar Gunnarsdóttur næringarfræðings á mataræði sex ára barna sem birt er í nýjasta hefti læknablaðsins, en matur og drykkur barnanna var vigtaður og skráður í þrjá daga og fæðuval og neysla næringarefna borin saman við ráðleggingar og ráðlagða dagskammta.

Meðal niðurstaðna er að meðalneysla vítamína og steinefna var almennt hærri en ráðlagður dagskammtur að undanskildu d-vítamíni þar sem einungis fjórðungur barnanna fékk nægilega stóran skammt miðað við ráðleggingar.

Þá kemur í ljós að einungis fjórðungur barnanna borða fisk og lýsi samkvæmt ráðleggingum og innan við fimmtungur neytti ávaxta og grænmetis í samræmi við ráðleggingar. Hins vegar er fæða með lága næringarþéttni svo sem kex, kökur, gos og sælgæti um fjórðungur af heildarorku sem leiðir til þess að trefjainnihald fæðunnar er ekki eins og best er á kosið.

Meðal þeirra ályktana sem dregnar eru í af rannsókninni er að hún sýni ef til vill betri mynd af mataræði íslenskra 6 ára barna heldur en það er í raun og veru þar sem einstaklingar, það er foreldrar barnanna, sem eru áhugasamir um mikilvægi næringar eru líklegri til að taka þátt í könnun sem þessarri.

Þá segir að matarvenjur byrji að mótast í æsku og þess vegna sé mikilvægt að börn læri hollar venjur snemma og miðað við þessar niðurstöður þurfi að leita leiða til að bæta matræði íslenskra barna meðal annars með forvörnum og ráðleggingum til þeirra sem þurfa leiðbeiningar um val á hollum mat fyrir börn sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×