Innlent

Slökkviliðið fór í 25 þúsund útköll

Slökkviliðið við Þjóðleikhúsið.
Slökkviliðið við Þjóðleikhúsið. Mynd/ Daníel.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) sinnti yfir 25 þúsund útköllum á árinu 2012. Þar af voru rúmlega 1.200 útköll vegna slökkviliðs en yfir 24 þúsund útköll vegna sjúkraflutninga, eða í kringum 95% allra útkalla SHS. Heildarfjöldi útkalla jókst um 618 á milli ára.

Sjúkraflutningum er skipt niður í fjóra flokka eftir alvarleika. Þannig eru F1 og F2 svokallaðir neyðarflutningar, F3 vegna vægari sjúkdómstilfella eða minni slysa og F4 vegna flutninga á fólki á milli stofnana. Alls voru 6.602 neyðarflutningar á árinu 2012 en mesta aukningin var í F3 flutningum sem fjölgaði um 911 frá því í fyrra.

Ef útköll eru skoðuð eftir mánuðum var slökkviliðið oftast kallað út í janúarmánuði í fyrra, eða samtals í 135 útköll, en mest var um sjúkraflutninga í desember, alls 2.202 útköll. Fæst útköll voru aftur á móti vegna slökkvi- og björgunarstarfa í september í fyrra og í apríl voru fæst útköll vegna sjúkraflutninga.

Í 114 tilfellum var ástæða útkalla SHS eldur í byggingu en árið 2011 voru þau tilfelli 144 talsins og hefur því fækkað um 30 á milli ára. Það er mjög jákvæð þróun sem SHS þakkar aukinni meðvitund almennings um eldvarnir og síaukinni áherslu á forvarnir. Af öðrum útköllum vegna slökkvi- og björgunarstarfs í fyrra má nefna útköll vegna brunaviðvörunarkerfa, óveðurs eða annarra óhappa.

Forvarnasvið SHS sinnti vel yfir 3.000 eldvarnaskoðunum á síðasta ári, framkvæmdi rúmlega 200 loka- og öryggisúttektir og heimsótti tæplega 130 staði vegna veitingahúsaeftirlits. Það eru því næg verkefni hjá SHS allt árið um kring, eins og tölurnar gefa til kynna, og jákvæður taktur í fyrirbyggjandi verkefnum sem skila sér í færri útköllum vonandi til lengri tíma litið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×