Innlent

„Verðum að tryggja að þetta geti ekki gerst aftur“

„Ég held að mörg tár hafi fallið síðustu daga," segir Þorgerður Katrín, þingkona í allsherjar- og menntamálanefnd. „Geðshræringin er mikið og margir eru auðvitað í áfalli eftir þessa umfjöllun.

Hér vísar Þorgerður Katrín til umfjöllunar Kastljóss um brotaferil barnaníðingsins Karls Vignis Þorsteinssonar. Hann hefur viðurkennt að hafa brotið á allt að fimmtíu börnum á síðustu fimm áratugum.

Þorgerður Katrín var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrr í dag. Þar ræddi hún um lagaumhverfið í kringum kynferðisbrot gagnvart börnum.

„Það sem maður skilur ekki í þessu máli er hin samfélagslega þöggun sem átt hefur sér stað í gegnum árin," segir Þorgerður Katrín. „Að við höfum ekki veitt börnunum í samfélagi okkar nægilega mikið skjól. Það er stærsta verkefni stjórnmálamanna, forystumanna í samfélaginu og auðvitað samfélagsins alls, að reyna að koma börnum í öruggt skjól."

Í kjölfar þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um mál Karls Vignis segir Þorgerður Katrín að tímabært sé að endurskoða lagaumhverfið þegar kynferðisbrot gegn börnum eru til umfjöllunar. „Við þurfum að funda, yfirvegað, með fólki sem hefur sérfræðiþekkingu á slíkum málum, lögreglu, Barnaverndarstofu og öðrum aðilum."

Mörg brota Karls Vignis er nú fyrnd. Þorgerður Katrín segir að endurskoða verði reglur sem segja til um fyrningu slíkra brota.

„Í ljósi þessa máls er eðlilegt að við förum vel yfir þetta, með hagsmuni barna í huga. Einnig verður að hafa grundvallarreglur réttarríkisins sem verja bæði sakborninga en ekki síður fórnarlömbin. Það er okkar hlutverk nú í nefndinni."

„En í þessi máli skiptir auðvitað sköpum að fræða börnin. Að þau séu upplýst og kunni að neita ljótum hlutum. Það þarf að gefa börnunum sjálfstraust til að berjast gegn hinu illa í samfélaginu," segir Þorgerður Katrín.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×