Innlent

Jón Gnarr hittir The Wire-leikstjóra

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Jón Gnarr hlakkar til að hitta Agnieszku Holland.
Jón Gnarr hlakkar til að hitta Agnieszku Holland. samsett mynd
Pólska leikstýran Agnieszka Holland verður viðstödd sýningu á kvikmynd sinni In Darkness í Bíó Paradís þann 28. september. Eins og Vísir hefur greint frá verður myndin sýnd með sjónlýsingu fyrir blinda og sjónskerta. Sýningin er hluti af verkefninu „Ísland og Pólland fyrir aðgengi að menningu”.

Verndari verkefnisins á Íslandi er Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, en Holland hefur einmitt leikstýrt þáttum í bandarísku sjónvarpsþáttaröðinni The Wire sem borgarstjóri hefur mikið dálæti á. Besti flokkurinn setti það til dæmis sem skilyrði fyrir meirihlutasamstarfi á sínum tíma að allir borgarfulltrúar hefðu séð þættina.

„Ég er mjög spenntur fyrir að hitta hana og líka fyrir að sjá þessa mynd,“ segir Jón og segir hana vera áhugaverðan leikstjóra. „Hún leikstýrði nokkrum Wire þáttum sem margir vita að eru mínir uppáhaldssjónvarpsþættir."

Meðal annarra verka Holland eru þættir í sjónvarpsþáttaröðinni The Killing og kvikmyndin Europa Europa frá árinu 1990 sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir besta handrit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×