Innlent

Vill gera skóla fjárhagslega ábyrga fyrir einelti

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Eygló Harðardóttir, Þingmaður Framsóknarflokksins, vill innleiða öfuga sönnunarbyrði í grunnskóla landsins að sænskri fyrirmynd. Það er að segja ef eineltismál kemur upp, og fórnarlamb og aðstandendur kvarta ítrekað undan því, þá þurfi skólayfirvöld að sýna fram á að þeir hafi sannarlega brugðist við kvörtununum. Komi annað í ljós geta þeir orðið skaðabótaskyldir.

„Ég þekki fólk sem hefur orðið fyrir mjög ljótu einelti, og ég veit hversu mikill hryllingur þetta er og hversu brotið fólk er á eftir," segir Eygló um nauðsyn þess að taka þennan erfiða málaflokk föstum tökum. Hún segir að lög Svía, sem voru samþykkt árið 2006, virðast hafa reynst vel, og eru að auki áhrifarík leið til þess að fá skólayfirvöld til þess að bregðast við þessu alvarlega vandamáli.

„Ég hef verið að ræða þetta mál við menntamálaráðherra og velferðarráðherra," segir Eygló spurð hvort það komi til greina að hún leggi fram þingsályktunartillögu hvað þessa leið varðar. Hún segir að nú sé jafnréttislöggjöfin til skoðunar. Eygló vill sjá einelti falla í þennan flokk.

Spurð um foreldra barna sem beita önnur börn ítrekað ofbeldi í grunnskólum landsins, hver ábyrgð þeirra sé, svarar Eygló að ef skólayfirvöld sýni fram á að þeir hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að bregðast við eineltinu, „þá hlýtur ábyrgðin að lokum hafna hjá foreldum gerandans."

„Það er nauðsynlegt að gera eitthvað, það þarf að halda þessari umræðu gangandi," segir Eygló, en hún segist vel kunnug ofbeldinu sem fylgir eineltinu, þannig þekki hún fólk sem hafi orðið fyrir einelti, auk þess sem ellefu ára gamall drengur tók sitt eigið líf á síðasta ári í kjördæmi hennar, en talið er að ein af ástæðunum sé einelti sem hann mátti þola í grunnskóla.

Eygló segir að það sé nauðsynlegt að skerpa á þessum málaflokki, gera skólayfirvöld ábyrg, meðal annars með því að hafa og framfylgja viðbragðsáætlun vegna eineltis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×