Innlent

Íslendingar ekki feitastir - tíðni hjarta- og æðasjúkdóma minnkar

Á síðustu árum hafa víðtækar rannsóknir á heilsufari Íslendinga farið fram. Mælingar síðustu ára sýna fram á að mikill árangur hefur fengist af breyttu mataræði, breyttum lífsstíl og aukinni hreyfingu.

Guðmundur Björnsson, endurhæfingarlæknir, var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þar ræddi hann við þáttastjórnendur um rannsóknir síðustu ára. Guðmundur og kollegar hans hafa unnið að mælingunum síðustu ára í samstarfi við Háskóla Íslands.

„Heilsufar Íslendinga hefur batnað," segir Guðmundur. „Það hefur dregið sérstaklega úr tíðni hjarta- og æðasjúkdóma. Íslendingar hreyfa sig mun meira en áður, borða hollari mat og reykja minna."

Guðmundur tekur fram að tölurnar séu ekki jafn jákvæðar þegar litið er á unga fólkið. Hann sér þó fram á að aukin fræðsla muni bæta úr því.

„Á tímabili stefndi í að við yrðum feitasta þjóð veraldar en það virðist vera að draga úr því," segir Guðmundur.

Þá segir Guðmundur að tíðni hjarta- og æðasjúkdóma hafi fallið um tugi prósenta. „Það hefur dregið verulega út því að fólk sé að deyja úr slíkum sjúkdómum, þá sérstaklega þegar litið er til ungra karlmanna."

Hægt er að hlusta á fróðlegt viðtal við Guðmund hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×