Innlent

Gröfumaður ógnar Hraunavinum

Jakob Bjarnar skrifar
Reynir Hraunavinur ætlar sér ekki að gefa tommu eftir í baráttu fyrir Gálgahraun.
Reynir Hraunavinur ætlar sér ekki að gefa tommu eftir í baráttu fyrir Gálgahraun. Stefán Karlsson
Gröfustarfsmaður ÍAV sýndi mótmælendum úr hópi Hraunavina í Gálgahrauni á Álftanesi ógnandi tilburði að þeirra sögn í morgun og otaði að þeim vélskóflu.

Margir hafa sett sig á móti framkvæmdum um vegagerð í Gálgahrauni og standa mótmælaaðgerðir yfir þrátt fyrir að Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðarbæjar, segi að rétt hafi verið staðið að öllu í ferlinu, framkvæmdin hafi staðist umhverfismat og heimild hafi fengist fyrir henni. Vísir heyrði í Reyni Ingibjartssyni, formanni Hraunavina í morgun. Þeir voru staddir á vettvangi í hífandi roki og kulda snemma í morgun, einir átta, en engan bilbug er á þeim að finna þrátt fyrir mótlæti. Og þeir lentu í hremmingum.

„Nú við urðum fyrir nokkuð einkennilegri upplifun. Við fórum út að vinnuskúrnum og þar eru gröfurnar. Og þá kemur ein grafan að okkur og sá sem henni stjórnaði sagði að við mættum ekki vera þarna á svæðinu. Hann fór að veifa skóflunni framan í okkur. Og ef við værum eitthvað að tefja og væflast þarna fyrir yrði bara kallað á lögregluna. Það er greinilega mikil taugaveiklun í gangi,“ segir Reynir. „Ég áttaði mig bara ekki á því fyrr en eftir á að skóflan var einhverjum sentímetrum fyrir ofan hausinn á mér.“

Reynir segir það siðlaust af hálfu þeirra sem standa að framkvæmdunum að halda þeim áfram meðan málið er fyrir dómsstólum. Þeir eru byrjaðir að grafa vegstæði utan við hraunið og ef fram fer sem horfir hefjast þeir handa við að mola hraunið á morgun. Þá segir Reynir að verði allsherjar útkall og þá munu margir mæta til að mótmæla. „Þá verður okkur að mæta. Það er fullt af fólki tilbúið að koma hingað og mótmæla. Það er bara þannig,“ segir Reynir og er þess albúinn að leiða fjölmenn mótmæli þá er ÍAV fara að mola sig í gegnum hraunið.

Vísir hafði samband við Sigurð R. Ragnarsson framkvæmdastjóra Mannvirkjasviðs hjá ÍAV en hann hefur yfirumsjá með framkvæmdunum í Gálgahrauni. Hann hafði ekki heyrt í þeim sem átti í viðskiptum við Hraunavini í morgun. „En, almennt má segja að þarna er um að ræða vinnusvæði sem enginn á erindi inn á nema við sem erum að vinna verkið. Öllum vinnusvæðum fylgir hætta af einhverju tagi og ef að menn eru inni á vinnusvæðunum í leyfisleysi þá eru þeir þar á eigin ábyrgð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×