Innlent

Fimmtán ára með fíknefni

Selfoss.
Selfoss.
Um helgina höfðu lögreglumenn á Selfossi afskipti af 15 ára gömlum unglingi sem var með í vasa sínum tæpt gramm af kannabis.

Unglingurinn var yfirheyrður í lögreglustöðinni að viðstöddum fulltrúa barnaverndarnefndar samkvæmt tilkynningu frá lögreglu. Hann má búast við sekt vegna fíkniefnanna auk þess sem mál hans fer nú í farveg hjá barnaverndarnefnd.

Ökumaður á leið suður Þrengslaveg ók aftan á kyrrstæða bifreið á móts við Lambafell um hádegisbil síðastliðinn fimmtudag. Þrír voru í bifreiðinni sem ekið var á. Ekkert þeirra slasaðist. Hin bifreiðin valt eftir áreksturinn og var ökumaður hennar fluttur á heilsgæsluna á Selfossi en meiðsl hans reyndust minni háttar.

Þá fótbrotnaði maður síðastliðið föstudagskvöld á göngu í Rjúpnabrekkum í Reykjadal í Ölfusi. Björgunarsveitarmenn voru kallaðir til aðstoðar og báru þeir manninn um 600 metra leið að sjúkrabifreið.

Um helgina voru svo 26 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt og þrír fyrir að tala í farsíma án þess að nota til þess handfrjálsan búnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×