Innlent

Taka lyf í vanlíðan og enda á spítala

Sunna skrifar
Að minnsta kosti 400 íslensk börn urðu fyrir það alvarlegri eitrun á árunum 2005 til 2010 að leitað var með þau á sjúkrahús. Ekkert barn lést á tímabilinu af völdum eitrunar en stór hluti þeirra var lagður inn á spítala til aðhlynningar.

Langalgengustu eitranirnar voru meðal eldri barna á aldrinum 15 til 18 ára, sem tóku viljandi inn lyf vegna andlegrar vanlíðanar eða neyslu. Mikill meirihluti þeirra fékk geðræna meðferð í kjölfarið.

Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar Dagmarar Daggar Ágústsdóttur, læknanema á fimmta ári við Háskóla Íslands (HÍ), í samstarfi við læknadeild HÍ, barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL), Barnaspítala Hringsins og bráðasvið LSH.

Í rannsókn Dagmarar er eitrunum skipt í fjóra flokka; óviljandi slys, misnotkun, tilraun til sjálfsvígs og annað eða óvíst. Óviljandi slys eru algengasta orsök eitrunar hjá yngri börnum en tilraun til sjálfsvígs hjá þeim eldri og á unglingsstigum.

Alls voru 740 tilfelli skoðuð í rannsókninni, sem náði til allra barna á aldrinum 0 til 18 ára sem höfðu komið á Barnaspítala Hringsins eða bráðamóttöku LSH í Fossvogi vegna lyfjaeitrana eða annarra eitrana á árunum 2005 til 2010. Upplýsingum um börnin var safnað úr sjúkraskrám. Þar af voru 472 eitranir í 397 börnum sem féllu undir skilyrði rannsóknarinnar.

Dagmar kynnti niðurstöður sínar á ráðstefnu í líf- og heilbrigðisvísindum í HÍ í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×