Innlent

Konum vantreyst innan lögreglunnar

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Konur í lögreglunni eru meðvitaðar um að staða karla í lögreglunni sé betri en kvenna. Meirihluti kvenna gerir sér grein fyrir því að karlar og konur hafi ekki jafna möguleika innan lögreglunnar og tvær af hverjum þremur finnst stundum, oft eða alltaf komið öðruvísi fram við þær en karla.  Þetta er meðal þess sem hægt er að lesa í könnun sem embætti ríkislögreglustjóra og Háskóli Íslands stóðu fyrir á vinnumenningu meðal starfandi lögreglumanna.

Þar segir að hægt sé að túlka niðurstöður könnunarinnar á vinnumenningu innan lögreglunnar  þannig að konur treysti sér, og öðrum konum, en að karlar eru ekki tilbúnir til að treysta eða viðurkenna konur sem jafningja sína.

Til dæmis treysta konur sér, og öðrum konum, til þess að framkvæma hættuleg og erfið verkefni til jafns við karla, og konur telji sig ekki þurfa vernd karla í hættulegum verkefnum. Aftur á móti virðast karlar síður treysta konum fyrir slíkum verkefnum og eru þriðjungur karla á því að karlar þurfi að vernda konur.

Ljóst er að því erfiðari sem verkefnin eru talin vera því síður eru karlar tilbúnir til þess að samþykkja að konur jafnt og karlar sinni þeim. Í könnuninni kemur fram að  nær allar konur treysta sér, og öðrum konum, til að starfa við hlið karla í ávana- og fíkniefnadeild LRH, en aðeins tveir af hverjum þremur körlum eru á því máli.

Sérsveitin er augljóslega talið vígi karla, en konur eru almennt opnari fyrir því en karlar að konur jafnt sem karlar starfi í sveitinni og að konur hafi þann líkamlega styrk sem þarf til að vera í sveitinni. Karlar eru frekar sammála því en konur að karlar séu hæfari en konur til að vera í sérsveitinni.

Viðhorf yngsta aldurshópsins eru mun íhaldssamari en þeirra sem eldri eru. Þetta á sérstaklega við í viðhorfum til staða sem veita völd og virðingu, sérsveitarinnar. Yngsti aldurshópurinn frekar en aðrir aldurshópar, telja að karlar séu hæfari en konur til að annast erfið og hættuleg verkefni.

Það vekur sérstaka athygli að á sama tíma og yngsti aldurshópurinn veitir svör sem telur konur síður hæfar, þá telur fjórðungur aldurshópsins stöðu kvenna vera betri en karla innan lögreglunnar. Niðurstöður  rannsóknarinnar  á vinnumenningu innan lögreglunnar benda til að yngsti aldurshópur lögreglukarla óttist um stöðu sína og sé annt um að viðhalda henni.

Lögreglumenn á aldrinum 20-29 ára eru almennt reynsluminnstu lögreglumennirnir, það kann að vera að hinir reynslumeiri hafi meiri reynslu af því að starfa með konum og hafi þar af leiðandi jákvæðari viðhorf til kvenna. 


Tengdar fréttir

Einelti innan lögreglunnar

Einelti er útbreitt vandamál innan lögreglunnar. Einn af hverjum fimm lögreglumönnum segist hafa orðið fyrir einelti í lögreglunni, og flestir segja af hendi yfirmanns

Kynferðisleg áreitni innan lögreglunnar útbreytt vandamál

Þriðjungur kvenna í lögreglunni hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni oftar en tvisvar sinnum á sex mánaða tímabili á móti tæplega 18% karla. Konur verða frekar og oftar fyrir kynferðislegri áreitni en karlar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×