Innlent

Enn snjóflóðahætta á Vestfjörðum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mokað á Vestfjörðum.
Mokað á Vestfjörðum.
Snjóflóðahætta er enn á nokkrum stöðum á Vestfjörðum þó að veðrið sé að mikið gengið niður. Gríðarlegar skemmdir eru á rafmagnslínum og er unnið að viðgerðum í dag.

Óveðrið sem farið hefur yfir landið síðustu daga er að mestu gengið niður og komið ágætisveður á flestum stöðum. Snjóflóðahætta er þó enn víða á Vestfjörðum og vegir ófærir. Víðir Reynisson er deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra.

„Vegagerðin er byrjuð að moka og það er verið að opna leiðina frá Akureyri á Dalvík og áfram á Ólafsfjörð og Siglufjarðarhlíðina. Einhverjar leiðir á Vestfjörðum er byrjað að moka. Það er ekki búið að taka ákvörðun um mokstur í Súðavíkurhlíð. Það er verið að fara yfir snjóflóðahættuna þar. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar er að fara yfir og meta almennt um snjóflóðahættu hvort það sé hægt að aflétta þeim rýmingum og öðru sem enn þá eru í gildi."

Rafmagn er víða komið á aftur en miklar skemmdir urðu á rafmagnslínum.

„Starfsmenn Orkubús Vestfjarða, Rarik og Landsnets eru búnir að vinna sleitulaust eiginlega frá því að rafmagnið fór að til þess að koma hlutum í lag og áfram verður unnið að því í dag. Það er ekki búið að ljúka bilanagreiningu á öllum stöðum en þar sem það er búið eru viðgerðir hafnar eða eru að hefjast. Einhverjum viðgerðum lýkur í dag en það er ljóst að tjónið er gríðarlega mikið og það mun taka einhverja daga í viðbót að ná heildaryfirsýn og viðgerðum á öllu svæðinu," segir Víðir aðspurður út í málið.

Víðir segir erfitt að segja til um hversu mikið tjónið sé. „Bara sem dæmi þá er sem sagt línan sem að skemmdist á Snæfellsnesi, svokölluð Ólafsfjarðarlína, þar eru 67 möstur, eða staurasamstæður, sem eru brotnar þar. Þannig að tjónið er alveg gríðarlegt," sagði Víðir Reynisson hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×