Innlent

Samkomutorg við hlið pylsuvagns

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Samkomutorgið samkvæmt tillögum Glæsis.
Samkomutorgið samkvæmt tillögum Glæsis.
Víkingafélagið Glæsir stefnir að byggingu samkomutorgs í víkingastíl á Grundarfirði. Hugmyndin var kynnt á fundi bæjarráðs á dögunum að því er Skessuhorn greinir frá.

Nýta á lóð við Grundargötu 33 gegnt Sögumiðstöðinni fyrir torgið. Hefur lóðin að mestu staðið auð utan þess að pylsuvagn hefur staðið þar yfir sumartímann. Pylsuvagninn mun áfram verða staðsettur á lóðinni.

Gert er ráð fyrir þremur samliggjandi húsum í fornum stíl. Framan við húsin verði byggðir áhorfendapallar, úr vörubrettum klæddir timbri, sem munu líta út eins og skipalending. Í húsunum geti tónleikar farið fram, sýningar verið haldnar og boðið upp á ýmsa afþreyingu fyrir ferðamenn af skemmtiferðaskipum.

„Sperrurnar í húsin verða mesti kostnaðurinn en annars er allt efni fáanlegt í kringum okkur. Við þurfum 12 gamla rafmagnsstaura í húsin og mastur skipsins. Við munum svo hlaða vegg á horninu á steinhleðslunámskeiði sem við ætlum að halda í sumar," segir Þorgrímur Kolbeinsson hjá Glæsi í samtali við Skessuhorn.

Víkingafélagið Glæsir var stofnað árið 2012. Félagið hélt víkingahátíð í ágúst síðastliðið sumar þar sem félagið var formlega kynnt til sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×