Lífið

Meira en samt miklu minna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ofbeldisbrellurnar í Evil Dead eru yfirgengilegar og einstaklega vel gerðar.
Ofbeldisbrellurnar í Evil Dead eru yfirgengilegar og einstaklega vel gerðar.
Bíó, Evil Dead

Leikstjórn: Fede Alvarez

Leikarar: Jane Levy, Shiloh Fernandez, Lou Taylor Pucci, Jessica Lucas, Elizabeth Blackmore



Fjögur ungmenni fara með vinkonu sína, fíkil í fráhvörfum, í skógarkofa til að láta renna af henni í nokkra daga. Í kjallaranum finnast dauðir kettir í tugatali hangandi úr loftinu, auk ævafornrar galdraskruddu sem reynist hinn mesti örlagavaldur.

Myndin er endurgerð The Evil Dead, hræódýrrar slettumyndar frá árinu 1981 sem kom leikstjóranum Sam Raimi (Spider-Man, Oz the Great and Powerful) á kortið. Hér er greinilega úr fleiri aurum að moða en ferskleiki frumgerðarinnar er því miður orðinn að samsafni klisja og lítið er gert til að bæta það upp.

Leikararnir eru litlaust fallbyssufóður, að undanskildum Eyþórs Inga-klónanum sem hleypir öllu í báli og brand með fikti sínu við bókina. Hann er eina eftirminnilega persóna myndarinnar, en reyndar gæti síða hárið spilað þar stærstan þátt.

Það eru þá helst þeir áhorfendur með skæðasta blóðblætið sem fá fullnægju sína, en ofbeldisbrellurnar í Evil Dead eru yfirgengilegar og einstaklega vel gerðar. Það eitt dugir þó ekki til og myndin er frekar broddlaus þegar upp er staðið.

Niðurstaða: Augljós eftirbátur frumgerðarinnar en það má flissa yfir sóðaskapnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.