Innlent

Ólögráðahelgi ádeila á unglingadrykkju

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Að sögn rekstrarstjóra Glaumbars verður öryggisgæslan hert á Ólögráðahelginni.
Að sögn rekstrarstjóra Glaumbars verður öryggisgæslan hert á Ólögráðahelginni. samsett mynd
„Þarna er svolítið verið að gera grín að því hvað er mikið af unglingum fullir niðri í bæ á menningarnótt,“ segir Bjarki Reyr, rekstrarstjóri skemmtistaðarins Glaumbars um Ólögráðahelgina svokölluðu, sem fram fer 22. - 24. ágúst.

Samkvæmt upplýsingum af veggspjaldi verða viðburðir Ólögráðahelginnar „Barnabjóra Beer Pong“, „Snuddupartý“ og „Smápíkupartí“, en að sögn Bjarka er tilgangurinn sá að skapa umtal um þá menningu sem hefur skapast í miðbænum á menningarnótt.

„Það hefur verið svolítið um það að unglingar fái að vera lengi niðri í bæ á menningarnótt. Þeir eru oft mjög fullir og að reyna að komast inn á skemmtistaðina. Það er auðvitað ólöglegt og ekki rétt og það á að taka á þessu. En þetta er látið viðgangast samt sem áður og það er í raun verið að leika sér svolítið með það.“

Bjarki segir að á öllum auglýsingum standi stjörnumerkt neðst að það sé 20 ára aldurstakmark inn á staðinn og að öryggisgæslan verði hert til muna þessa helgi. En telja starfsmenn Glaumbars að ádeilan komist til skila?

„Þar sem þú ert að hafa samband hingað þá hugsa ég að hún sé alveg að gera það,“ segir Bjarki og bætir því við að mikil gæsla verði á staðnum og enginn undir aldri fái að neyta áfengra veitinga inni á staðnum.

„Ég sá á Facebook-síðu Glaumbars að það hefur verið send inn ein fyrirspurn, af þúsundum sem skoða síðuna, þar sem spurt er hvort þetta sé löglegt. Þetta er auðvitað bara nafn og verið að leika sér að orðum. Það er ekkert ólöglegt við það og við erum ekki að bjóða fólki undir aldri að koma hingað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×