Innlent

Formannskjörið ógilt

Frá kjarabaráttufundi hjúkrunarfræðinga.
Frá kjarabaráttufundi hjúkrunarfræðinga.
Kjörnefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur ógilt kosningar til formanns félagsins sem fram fóru 1.-11. mars. Nefndin telur ekki hægt að útiloka að við talningu hafi atkvæði verið talin með sem greidd voru eftir að atkvæðagreiðslu lauk.

Á heimasíðu félagsins kemur fram að kjörnefnd telji „ekki hjá því komist að ógilda niðurstöður kosningarinnar og að kosning til formanns í félaginu fari fram að nýju". Aðeins munaði einu atkvæði í kosningunni og kærði Vigdís Hallgrímsdóttir framkvæmd kosningarinnar.

Niðurstaða kjörnefndar er samhljóða áliti Ástráðs Haraldssonar, hæstaréttarlögmanns, en stjórn FÍH hafði leitað álits hans á meintum ágöllum í framkvæmd kosningarinnar. Kjörnefnd FÍH hefur sagt af sér í kjölfarið.

„Fyrir hönd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga bið ég frambjóðendur í formannskjöri FÍH og hjúkrunarfræðinga alla, afsökunar á þeim mistökum sem gerð voru í framkvæmd formannskosningarinnar," segir Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður FÍH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×