Skoðun

„Góðan daginn“

Sindri Már Hannesson skrifar
Ég geng inn í verslunina í mínu mesta sakleysi rétt fyrir hádegi á þriðjudegi, sötra úr kaffimálinu og nýt þess að skoða mig um í rólegheitum á undan öllum öðrum. Þessi frídagur fer sko heldur betur í rólegheit.

Skyndilega er kyrrðin trufluð. Fyrir framan mig við kassann stendur afgreiðslumaður um tvítugt brosandi eins og bjáni og segir í ofanálag „Góðan daginn".

Ég snarstoppa, horfi í kringum mig en sé engan. Dónaskapurinn beinist greinilega að mér og mér einum. Persónuleg árás og það fyrir hádegi. Dagurinn ónýtur. Hver heldur þessi fermingardrengur að hann sé?

Ég kem mér undan árásinni, gríp næstu flík í flæmingi og skoða hana af áhugaleysi. Ég vona sölumannsins vegna að hann verði ekki svo vitlaus að reyna svona bull aftur. Ég er nú klárari en svo að falla fyrir svona sölutrixum og uppgerðar kurteisi. Það eina sem dugar á þetta sjoppulið er að sýna engin viðbrögð - hér ræð ég en enginn smeðjubrosandi strákpjakkur.

Afgreiðslumaðurinn gengur fram fyrir borðið og ég sé útundan mér hvernig hann kemur sér fyrir eins og til þess að nálgast mig aftur.

Nei, hjúkket, hann er bara að brjóta saman boli. Ég lít laumulega á hann, með allan vara á - afhverju brosir drengurinn svona? Er hann að hæðast að mér? Hvað gengur honum til?

Hann lítur upp og sér hvar ég stari á hann og endurtekur sig: „Góðan daginn" segir hann og brosir eins og hann ætli að ræna úr mér sálinni.

„Heldurðu að ég sé heyrnarlaus?"

Ég sný mér snarlega undan og geng út - í þessa djöfuls verslun kem ég sko ekki aftur! Fjárans unga kynslóðin í dag, ekkert nema dónar!

Ég heyri drengstaulann kalla á eftir mér:

„Takk fyrir komuna".




Skoðun

Sjá meira


×