Innlent

Þrjú ungmenni beittu Karl Vigni líkamlegu og andlegu ofbeldi heila nótt: Bundu Karl Vigni við stól og píndu

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Hrönn Sveinsdóttir
Hrönn Sveinsdóttir
„Við fórum með stráknum upp til karlsins og földum okkur þegar hann opnaði hurðina. Þá stóð hann nakinn með handklæði utan um sig. Þeir fara að tala saman og þá stökkvum við vinur minn á hann, handklæðið dettur af honum og við setjum hann á stól og bindum hann. Hann verður ógeðslega hræddur, strákurinn brjálaðist og sagði honum að staðfesta það sem karlinn hefði gert honum. Hann viðurkenndi allt. Þá verðum við alveg brjáluð og byrjum að lemja hann og rústuðum öllu í íbúðinni hans. Við börðum hann samt ekki illa, það sást ekkert á honum."

Svo lýsir Hrönn Sveinsdóttir kvikmyndagerðarkona reynslu sinni á nýársnótt árið 1994 í samtali við Fréttablaðið. Hún og vinur hennar, þá sautján ára unglingar, hittu ungan mann í miðborg Reykjavíkur sem sagði þeim frá ofbeldi sem hann hafði orðið fyrir af hálfu Karls Vignis Þorsteinssonar í fjölda ára. Hún greindi frá atvikinu á Facebook eftir umfjöllun Kastljóss á mánudagskvöld, þar sem Karl játaði að hafa níðst kynferðislega á allt að fimmtíu börnum undanfarin fjörutíu til fimmtíu ár.

Ekki beinlínis löglegt

Hrönn og vinur hennar fóru með drengnum heim til Karls bundu hann við stól og létu hann játa skriflega að hafa misnotað drenginn og fjölda annarra barna og unglinga. Þau ræddu aldrei við lögreglu.

„Við sögðumst ætla að fara með þetta allt til löggunnar, hann færi í fangelsi og við myndum aldrei sjá hann aftur. En eftir á að hyggja urðum við hrædd við það sem við gerðum, því það var nú ekki beinlínis löglegt," segir hún. „Þetta var svo skrýtið allt saman. Maður hugsaði með sér að svona maður, sem hafði viðurkennt allt, að það væri örugglega búið að taka hann fyrir löngu," segir Hrönn. „En þegar ég sá Kastljósið leið mér hræðilega að hafa ekki gert eitthvað annað og meira en að pína hann og skemma íbúðina hans. Við hefðum auðvitað átt að fara til lögreglunnar."

Krakkarnir yfirgáfu íbúð Karls Vignis á nýársmorgun og skildu hann eftir í stólnum, bundinn og nakinn. Hann lagði aldrei fram kæru vegna næturinnar, sem Hrönn lýsir sem afar undarlegri.

„Við skildum hann eftir svona í íbúðinni, allt í rúst. Fórum með játninguna en gerðum aldrei neitt við hana. Við þorðum ekki að fara með hana til löggunnar því við höfðum auðvitað hegðað okkur eins og bjánar. En við héldum að við hefðum hrætt úr honum líftóruna."

Átti miklar sakir við hann

Drengurinn sagði Karl hafa boðið sér húsnæði og peninga eftir að hafa lent á götunni mörgum árum áður. Hann hefði misnotað drenginn öll þau ár sem hann dvaldi hjá Karli.

„Strákurinn átti svo miklar sakir við hann og fer að rifja upp allt sem hann hafði gert honum – byrjar að tala um aðra krakka líka – og karlinn viðurkennir allt. Eins og sást í Kastljósinu er hann ekkert ófús að viðurkenna þessa hluti og verður voða aumur," segir hún. „Við verðum rosalega reið, erum auðvitað bara 17 ára unglingar, og ég fer inn í íbúðina og sný öllu við í stofunni. Ég eyðilagði ekkert en sneri öllum myndum við, öllum blómapottum og húsgögnum. Ég heyri bara í þeim og labba um til að sjá hvað ég get gert meira. Svo fór ég reglulega inn í borðstofu og öskraði meira á hann."

Þvinguðu fram játningu

Hún segir Karl Vigni hafa verið afar óttasleginn. „Hann var bara bundinn við stól og var að drepast úr hræðslu. En við bara nutum þess. Strákurinn las líka yfir honum hvað hann væri mikið ógeð og réttast væri að drepa hann. Hann viðurkenndi að hafa misnotað fullt af öðrum krökkum," segir hún.

„Við fundum einhverjar möppur inni í skáp hjá honum með fullt af nöfnum með einhverjum krökkum. Við þvinguðum hann til að skrifa undir játningu og skrifa niður fullt af nöfnum á börnum sem hann hafði misnotað, og hann gerði það. En hann var náttúrulega drulluhræddur, allsber í stól."

Hún segir það hafa komið sér á óvart að Karl Vignir hefði haldið áfram að misnota börn.

„Hálfur bærinn vissi af þessu, þar á meðal ég, en samt gerðist ekkert. En á þessum árum hefði löggan sennilega bara kært okkur. Við vorum bara krakkabjálfar og þetta voru orð gegn orði og játning sem var þvinguð fram. En ég sá aldrei eftir þessu. Mér leið aldrei illa yfir því að hafa gert þetta. Það eina erfiða var að hafa hitt svona ógeðslegan mann. Þetta skrímsli sem hann sagðist sjálfur vera."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×