Skoðun

Eins árs starfs- afmæli Specialisterne á Íslandi

Í dag er alþjóðlegur dagur einhverfra. Þennan dag fyrir ári opnaði sjálfseignarstofnun Specialisterne á Íslandi mats- og þjálfunaraðstöðu sína fyrir einstaklinga á einhverfurófi. Þann 4. ágúst mættu síðan fyrstu sex einstaklingarnir til okkar í mats- og þjálfunarferlið. Frá þeim tíma hafa 16 einstaklingar verið hjá okkur og í dag eru þrír þeirra í launaðri vinnu og aðrir þrír í starfsnámi sem er undanfari launaðrar vinnu.

Starfsemi Specialisterne byggist á hugmyndafræði sem Thorkil Sonne hefur þróað með sínu góða starfsfólki í Danmörku allt frá árinu 2004. Í stuttu máli gengur verkefnið út á það að finna og fá til okkar einstaklinga með greiningu á einhverfurófinu, meta þá og þjálfa til sjálfshjálpar. Þeir 16 einstaklingar sem hafa verið hjá okkur á þessu ári eiga það flestir sameiginlegt að hafa ekki verið úti á hinum almenna vinnumarkaði. Þeir höfðu ekki haft hvatningu til að vakna til neinna sérstakra starfa og höfðu því oftar en ekki litla tilfinningu fyrir tilgangi sínum í hinu daglega lífi.

Hjá okkur hafa þessir einstaklingar þurft að mæta alla virka daga vikunnar og vinna í upphafi verkefni sem hjálpa okkur að meta almenna getu þeirra og finna helstu styrkleika og veikleika. Til að finna sem flestum störf við hæfi hafa þessir einstaklingar fengið tækifæri í starfsnámi hjá m.a. Reykjavíkurborg, Tölvulistanum, Menntaskóla Kópavogs, Nóa Síríus og Vistor. Þá höfum við einnig fengið til okkar nokkur skráningarverkefni sem við höfum unnið á starfsstöð okkar í Síðumúla 32. Það er tilfinning okkar, sem hefur líka verið staðfest af mörgum aðstandendum skjólstæðinga okkar, að á þeim tíma sem liðinn er frá því að starfsemi hófst hafi almenn vellíðan þessara einstaklinga batnað mikið og trú þeirra á sjálfa sig og umhverfið orðið meiri. Ný störf fyrir skjólstæðinga okkar og betri líðan þeirra gefur okkur trú og kraft til að halda áfram starfinu þrátt fyrir erfiðan rekstrargrundvöll.

Fjárhagsleg staða Specialisterne er í mikilli óvissu, en til dagsins í dag höfum við ekki haft úr öðru að spila en styrkveitingu frá Menntaáætlun ESB, Leonardo, og Starfsendurhæfingarsjóði VIRK, og framlögum frá fyrirtækjum og velunnurum. Um miðjan síðasta mánuð var samþykkt styrkveiting til Specialisterne frá velferðarráðuneytinu, sem er vel, en sá styrkur dugir ekki einn og sér til að tryggja tilveru okkar yfir næstu áramót. Við bíðum enn svara frá öðrum stofnunum og trúum og vonum að starfsemi Specialisterne eigi hljómgrunn hjá þeim sem deila út fjármunum hins opinbera.

Hér birtist að lokum listi yfir þau fyrirtæki og þær stofnanir sem hafa létt okkur lífið með styrkjum í formi ýmissa gjafa, peningaframlögum og margs konar fyrirgreiðslu.

Alcan á Íslandi, Arion banki, Blómaval, Borgarfjarðarhreppur, DK hugbúnaður, Efla verkfræðistofa, Fjölsmiðjan, Frón kexverksmiðja, Garðheimar, Innnes, Hreyfing, Intellecta, Íslandsbanki, Litaland, Marel, Menntaáætlun ESB, Nói Síríus, Penninn, Síminn, Tölvulistinn, Seltjarnarneskaupstaður, Sveitarfélagið Garður, Reykjavíkurborg, Reitir fasteignafélag, Vífilfell, Umsjónarfélag einhverfra, Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis og Ölgerðin.




Skoðun

Sjá meira


×