Lífið

Erlendir nemendur spenntir fyrir MA námi í myndlist

Hulda Stefánsdóttir er prófessor við myndlistardeild LHÍ. Í fyrsta sinn er nú hægt að stunda meistaranám við myndlist á Íslandi.
Hulda Stefánsdóttir er prófessor við myndlistardeild LHÍ. Í fyrsta sinn er nú hægt að stunda meistaranám við myndlist á Íslandi. fréttablaðið/stefán
„Það hefur staðið lengi til að bjóða upp á meistaranám í myndlist við Listaháskólann og það verið í undirbúningi í fleiri, fleiri ár,“ segir Hulda Stefánsdóttir, prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands. Hún hefur haft umsjón með þróun MA náms við skólann, en í haust verður í fyrsta sinn boðið upp á meistaranám í hönnun og myndlist hér á landi.

Átta nemendur fengu inngöngu í námið sem hefst í ágústlok og eru þrír þeirra af erlendu bergi brotnir. Að sögn Huldu hafa erlendir nemendur sýnt náminu mikinn áhuga og gildir það sama um BA námið við skólann.

„Þetta er ótvíræð góð viðbót við myndlistarnám hér á landi og kemur sér vel fyrir þá nemendur sem eiga þess ekki kost að fara út í framhaldsnám. Við finnum þó ekki síst fyrir miklum áhuga erlendis frá og það kemur manni á óvart því við vissum ekki við hverju mætti búast þegar hafist var handa við þróun námsins.“

Hulda vonar að þessi viðbót við námið muni setja sinn svip á listasenuna á Íslandi og segir skólann nú betur nýta tækifærin sem hér eru í boði. „Ísland þykir spennandi staður að heimsækja og við höfum því átt auðvelt með að fá til okkar flott fagfólk að utan og getum nú nýtt þeirra þekkingu betur. Námið felur einnig í sér þátttöku á starfsvettvangi lista og nemendum býðst þannig tækifæri til sérhæfingar í tengslum við ýmis svið samfélagsins sem og verkefni,“ segir hún að lokum. -sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.