Innlent

Aldraðir eigi vímulaust ævikvöld

Formaður SÁÁ segir áfengi fara verr í fólk eftir því sem hægir á líkamsstarfseminni með aldrinum.
Formaður SÁÁ segir áfengi fara verr í fólk eftir því sem hægir á líkamsstarfseminni með aldrinum. Fréttablaðið/Stefán
„Sú ákvörðun að setja upp bar á öldrunarstofnun bendir til að hugmyndir okkar um lífsgæði vímunnar séu komnar út í miklar öfgar,“ segir Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ, um þá fyrirætlan að hefja vínveitingar í borðsal Hrafnistu í Reykjavík.

„Í stað þess að setja upp bari á þessum stofnunum ættum við að hjálpa fólki til að eiga vímulaust ævikvöld. Það er nefnilega svo að áfengi rýfur ekki félagslega einangrun aldraðra; þvert á móti veldur óhófsneysla aldraðra oft mikilli félagslegri einangrun og hamlar samskiptum eldra fólks við börn sín og barnabörn,“ segir Gunnar Smári.

Að sögn Gunnars Smára er óhófsneysla áfengis og röng notkun lyfja mikið vandamál meðal aldraðra. „Áfengi fer verr í fólk eftir því sem hægist á líkamsstarfseminni og þegar fólk eldist tekur það inn meira af lyfjum, sem mörg hver virka illa með áfengi,“ segir hann.

Þá vísar formaður SÁÁ í breska rannsókn sem hafi sýnt að þriðjungur þeirra sem glímdu við áfengissýki og ofneyslu lyfja á efri árum þróuðu með sér sjúkdóminn eftir að á eftirlaunaaldurinn var komið:

„Þetta sýnir að aldraðir eru sérstakur áhættuhópur þegar kemur að áfengisneyslu; öfugt við það sem brjóstvitið vill segja okkur; að aldraðir séu komnir með þann andlega þroska að geta staðist áfengi. Málið er náttúrulega að áfengissýki eða lyfjamisnotkun tengist ekki þroska okkar, það eru aðrir þættir sem valda því að sum okkar þróa með sér áfengissýki.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×