Skoðun

Evru-horn Björns

Þröstur Ólafsson skrifar
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, ritar greinarkorn í horni Fréttablaðsins 26.9.2012. Þar er hann að svara utanríkisráherra og andmæla þeirri fásinnu Össurar að honum hafi nokkurn tíma dottið í hug að evran gæti verið dugandi gjaldmiðill fyrir Ísland.

Ekki ætla ég mér að taka afstöðu til deilna þeirra félaga. Hana verða þeir að takast á um tveir. Það var hins vegar ein setning sem ég staldraði við hjá Birni, og sýnir hvað kappið um að sverta evruna er oftast meira en forsjálnin. Hann segir: „Við hagfræðilegt mat á gildi evrunnar stöndum við betur að vígi nú en 2007. Evran hefur fallið á prófinu…“

Fyrri hluti þessara fullyrðinga er réttur. Eftir ítarlega úttekt Seðlabankans á kostum okkar í gjaldmiðilsmálum liggur fyrir vel unnin og alvarleg skýrsla sem vegur og metur af yfirvegun, hvaða bögglar fylgja hverju skammrifi. Niðurstaðan er að aðeins tveir raunhæfir kostir séu til staðar. IKR eða Evran. Hvorugur kosturinn er vandræðalaus. Endingarkostir þeirra og afleiddur fjármálalegur stöðugleiki er ekki sá sami. Látum þetta gott heita um þennan hlut af orðræðu Björns.

Hin fullyrðingin er alröng. Evran hefur ekki fallið á prófinu. Gengi hennar gagnvart Bandaríkjadollar, sem og flestum öðrum gjaldmiðlum, er svipað og þó ívið hærra en það var þegar henni var ýtt á flot á sínum tíma. Hins vegar hafa ríkisstjórnir fjölmargra evrulanda (og reyndar Íslands líka) frá þessum tíma og fram að hruni fallið illilega á prófinu. Það er óráðsía, eyðslusækni og agaleysi ríkisstjórna og þjóðþinga sem búið hefur til skuldavanda ríkja, sem skekur hinn vestræna heim, auk óhóflegrar áhættusækni stórbanka.

Evran sem slík hefur staðist þessa prófraun. Hún heldur gildi sínu. Nú er það svo að jafnvel mest skuldsettu ríkin vilja með engu móti hverfa frá evrunni. Vilja flestu fórna til þess að fá að vera með. Af hverju skyldi það vera? Mér sýnist hornið hans Björns ekki auðveldari dvalarstaður en sá sem hann vísaði Össuri í. Björn þyrfti að læra að greina rétt frá staðreyndum, þó þær falli ekki að hugmyndafræði hans. Það gæti hins vegar orðið honum erfitt.




Skoðun

Sjá meira


×