Innlent

Búvörusamningar framlengdir um tvö ár

Þeir Sveinn Sæland, formaður Sambands garðyrkjubænda, og Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, tóku í hendur ráðherra á Hótel Sögu í gær.
Þeir Sveinn Sæland, formaður Sambands garðyrkjubænda, og Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, tóku í hendur ráðherra á Hótel Sögu í gær. Fréttablaðið/Vilhelm
Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra og Oddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra skrifuðu í gær ásamt fulltrúum bænda undir breytingu á búvörusamningum. Þá var einnig skrifað undir nýjan búnaðarlagasamning.

Gildandi búvörusamningar um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða, mjólkurframleiðslu og sauðfjárræktar voru framlengdir um tvö ár og gilda nú til ársins 2017.

Litlar breytingar verða á framlögum ríkisins vegna samninganna aðrar en þær sem rekja má til verðlagsbreytinga. Samningarnir kalla því ekki á aukin útgjöld ríkissjóðs miðað við framkomið fjárlagafrumvarp.

Samkvæmt samningunum verður framlag ríkisins til garðyrkjunnar 283 milljónir á ári næstu þrjú ár á verðlagi ársins í ár. Þá verður framlag til mjólkurframleiðslu 6.041 milljón króna og framlag til sauðfjárræktar 4.477 milljónir.

Litlar sem engar breytingar voru gerðar á efni búvörusamninganna. Þó var fyrirvari settur inn í samningana um hugsanlegar breytingar sem kunni að leiða af niðurstöðum samningaviðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. En ljóst er að aðild myndi hafa í för með sér talsverðar breytingar á umhverfi búvöruframleiðslu hér á landi.

Í nýja búnaðarlagasamningnum eru framlög ríkisins hins vegar aukin nokkuð frá því sem var. Einkum eru framlög til jarðræktar og eflingar kornræktar aukin. Þannig hækka heildargreiðslur ríkisins samkvæmt samningum úr 425 milljónum í ár í 558,5 milljóna króna á næsta ári.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×