Innlent

Fræðslusýning um kjarnorkusprengjurnar í HÍ

BBI skrifar
Mynd/Stefán Karlsson
Fræðslu- og ljósmyndasýning um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki opnaði í dag á Háskólatorgi. Sýningin fjallar um geigvænleg áhrif kjarnorkusprenginganna á íbúa og mannvirki.

Alls létust um 214 þúsund manns strax eða stuttu eftir að sprengjurnar féllu. Síðan þá og fram til ársins 2012 hafa álíka margir látist af eftirköstum árásanna. Enn í dag þjást um 227 þúsund manns vegna sjúkdóma sem raktir eru til sprenginganna.

Skýið sem myndaðist eftir að sprengjunni var varpað á Hírósíma.
Sýningin kemur til Íslands á vegum The Nagasaki National Peace Memorial Hall for the Atomic Bomb sem hefur m.a. það hlutverk að stuðla að því að kjarnorkuvopnum verði aldrei beitt aftur.

Á sýningunni er fjallað um áhrif kjarnorkusprenginga á líf og heilsu, áhrif tilrauna með kjarnavopn á menn og dýr og alþjóðasamninga um takmörkun og eyðingu kjarnavopna.

Sýningin hefur síðasta mánuðinn verið á Borgarbókasafninu og vakið mikla athygli. Þar heimsóttu um 5.300 gestir sýninguna. Hún mun nú standa í HÍ fram til 9. október.

Á vef HÍ er fjallað um sýninguna og sýndar myndir frá henni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×