Lífið

Ferðamönnum boðið að gista á jökli í fyrsta skipti

Pétur Haukur Loftsson, starfsmaður Pure Adventures.
Pétur Haukur Loftsson, starfsmaður Pure Adventures. Mynd/Ernir
„Þetta er í fyrsta sinn sem ferðamönnum gefst kostur á að eyða nótt uppi á íslenskum jökli," segir Pétur Haukur Loftsson, starfsmaður hjá Pure Adventures, en fyrirtækið skipuleggur ferðir upp á Langjökul í samstarfi við Add Ice.

Fyrsta ferðin var farin á mánudag og var þá ekið á átta dekkja trukki upp á Langjökul frá skálanum Jaka, komið við í tjaldbúðum í um 1.200 metra hæð og því næst farið alla leið upp á topp jökulsins. Þaðan gátu ferðamennirnir notið útsýnis til allra átta áður en farið var aftur í búðirnar þar sem fólk fékk mat, drykk og gistingu í sérútbúnum jökultjöldum. Að sögn Péturs Hauks tekur ferðafólkið fullan þátt í þeim verkum sem þarf að inna af hendi í tjaldbúðunum og aðstoða þannig við eldamennsku og vatnssöfnun.

Pétur Haukur segir það einstaka upplifun að eyða nótt uppi á Langjökli enda sé friðsældin mikil. „Þögnin er algjör, maður heyrir ekkert nema mögulega í einstaka flugvél. Svo vaknar maður morguninn eftir með einstakt útsýni sem má hiklaust kalla milljón dala útsýni," segir hann.

Fyrirtækið býður upp á þrjár ólíkar ferðir á jökulinn. Sú fyrsta felur í sér akstur til og frá Reykjavík ásamt jöklaferðinni, næsta inniheldur einungis jöklaferðina og hentar því vel ferðamönnum sem eru á eigin bíl og loks er boðið upp á Gyllta hringinn á bakaleiðinni í þeirri þriðju. Ferðirnar kosta frá 65 þúsund til 85 þúsund krónur á mann og er tólf ára aldurstakmark.

Svona líta tjaldbúðir ferðamannanna á jöklinum út.Mynd/Pure Adventures
Pétur Haukur tekur fram að fólk þurfi að vera vel búið ætli það upp á jökulinn og því dugi ekki að mæta í strigaskóm. „Fólk þarf auðvitað að vera vel skóað og í hlýjum fatnaði. Annars er þetta ekki líkamlega krefjandi og ætti því að henta öllum sem vilja prófa eitthvað nýtt og spennandi."

Boðið er upp á jöklagistingu fram til 1. september og aftur frá og með 1. maí á næsta ári. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunum pureadventures.is og glaciercamps.is.

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.