Erlent

Mál gegn meintum hryðjuverkamönnum gæti tekið mörg ár

Khalid Sheikh Mohammed ræðir við lögfræðing sinn.
Khalid Sheikh Mohammed ræðir við lögfræðing sinn. mynd/AP
Áhorfendur fylgjast með réttarhaldinu.mynd/AP
Mál ákæruvaldsins í Bandaríkjunum gegn fimm mönnum sem sakaðir eru um að hafa skipulagt hryðjuverkaárásirnar í New York og víðar 11. september árið 2001, er loks hafið. En réttarhöldin sjálf munu þó ekki hefjast á næstunni - verjendur og saksóknarar í málinu sögðu í dag að nokkur ár gætu verið í það gerist.

Einn af þeim sem ákærður er í málinu er Khalid Sheikh Mohammed en hann hefur lýst því yfir að hann hafi verið forsprakki mannanna sem framkvæmdu árásina í New York.

Mohammed og vitorðsmenn hans komu fyrst fyrir sjónir almennings í þrjú um helgina þegar ákæruefnin voru kynnt.

Áætlað er að réttarhöldin hefjist í maí á næsta ári. En einn af verjendum fimmmenninganna, James Connell, sagði AP fréttastofunni að dagsetningin væri aðeins til bráðabirgða - ómögulegt væri að segja hvenær sjálf réttarhöldin myndu eiga sér stað.

Nú þegar hafa orðið miklar tafir á málinu. Mohammed og fjórmenningarnir hafa ekki svarað spurningum dómara og rufu þagnarbindindi sitt aðeins til að lýsa óréttlæti réttarhaldanna.

Connell sagði að hegðun skjólstæðinga sinna væri aðeins forsmekkurinn þess sem koma skal. „Þetta verður löng og erfið barátta við kerfi sem beitir pyntingum og öðrum vafasömum aðferðum við upplýsingaöflun," sagði Connell.

En hegðun mannanna vakti ekki aðeins reiði dómara og sækjenda því nokkrir aðstandendur þeirra sem létust í hryðjuverkaárásunum árið 2001 voru viðstaddir.

„Þeir heyja heilagt stríð í réttarsalnum," sagði Debra Burlingame, en bróðir hennar, Charles, var flugmaður farþegaþotunnar sem hrapaði á Pentagon, höfuðstöðvar Varnarmálastofnunnar Bandaríkjanna í Arlington, Virginíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×