Innlent

Byssueign landans skilar Íslandi 15. sæti heimslistans

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Upptæk vopn Þótt byssueign sé með því mesta sem gerist í heiminum hér á landi er hún að mestu talin skýrast af veiðum.
Upptæk vopn Þótt byssueign sé með því mesta sem gerist í heiminum hér á landi er hún að mestu talin skýrast af veiðum. Fréttablaðið/Anton
Ísland er í 15. til 16. sæti á lista yfir þau lönd þar sem skotvopnaeign er hvað mest meðal almennings. Efstu sætin verma Bandaríkin, þar sem vopnaeign er langalgengust, Jemen, Sviss og svo Finnland.

Á vefnum Gunpolicy.org, sem hýstur er við Háskólann í Sydney í Ástralíu, er að finna samantekt um byssueign í 179 löndum, hvort heldur sem er hjá opinberum aðilum eða almenningi. Þá er gerð tilraun til þess að áætla fjölda ólöglegra skotvopna á hverjum stað. Hvorki Grænland né Færeyjar eru með í samantektinni.

Á Norðurlöndum virðist skotvopnaeign hins vegar hvað algengust í Finnlandi, þar sem 45,7 prósent landsmanna eiga byssu samkvæmt áætlun síðunnar. Finnar verma þriðja til fjórða sæti á heimslistanum hvað þetta varðar. Svíar eru í tíunda sæti þar sem 31,6 prósent er sagt eiga byssu og Norðmenn í 11. sæti með 31,3 prósent.

Danir eru svo aftur mun neðar á lista, eða í 54. sæti. Þar er áætlað að 12 af hverjum 100 eigi byssu.

Elvar Árni Lund, formaður Skotveiðifélags Íslands, segist gera ráð fyrir að í tölum um byssueign hér á landi fari langmest fyrir haglabyssum og veiðirifflum. Mögulega séu svo líka á sveimi einhver vopn frá þeim tíma að lítið eftirlit var með innflutningi skotvopna og svo séu einstaka menn sem safni byssum.

„En okkar félag er náttúrulega um skotveiðar, þannig að við höfum svo sem ekki mikið kynnt okkur málefni byssusöfnunar og byssueigenda, þótt það tengist okkar áhugamáli,“ segir Elvar Árni.

„Hér eru hálfsjálfvirkir rifflar bannaðir og skammbyssueign er sem betur fer mjög lítil á Íslandi og þá fyrst og fremst tengd markskotfimi. Yfirgnæfandi vopnaeign hér er því, að því er ég tel, til veiði og íþróttaiðkunar.“

Elvar Árni segir því ekki þurfa að koma á óvart hversu ofarlega Ísland sé á lista eftir því hversu byssueign sé almenn. „Að við séum þarna í takti við aðrar þjóðir á norðurhjaranum sýnir í rauninni hvað þetta er samofið okkar menningu, að stunda veiðar á dýrum merkurinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×