Innlent

Vilja bann strax við öflugum skoteldum

Unnur Úlfarsdóttir hjá Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. 
fréttablaðið/Anton Brink
Unnur Úlfarsdóttir hjá Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. fréttablaðið/Anton Brink
Hversu mörgum líkamshlutum á vera leyfilegt að fórna?? Þannig spyrja fjórir læknar í umræðugrein í sænska læknablaðinu þar sem þeir lýsa sprengjuáverka sem 13 ára drengur hlaut um áramótin í fyrra. Flugeldur skaust í lærið á drengnum af 10 til 15 metra færi og tættist lærið í sundur.

Að sögn læknanna brotnaði lærbein drengsins á þremur stöðum auk þess sem vöðvarnir soðnuðu bókstaflega í sundur vegna hitans af brennandi málmhlutum í flugeldinum. Taka varð fótlegginn af drengnum rétt neðan við nára.

Í viðtali við sænska ríkisútvarpið segir einn læknanna, Carl Johan Tiderius, að það hefði verið eins og drengurinn, sem fór út að horfa á flugelda með mömmu sinni, hefði stigið á jarðsprengju eða fengið sprengikúlu í lærið.

Læknarnir krefjast þess að leyfilegt hámarksmagn sprengiefna í öflugustu skoteldunum, sem nú er 250 g í Svíþjóð, verði strax minnkað í 75 g en ekki eftir fimm ár eins og tekin hefur verið ákvörðun um. Vitna læknarnir í reglur MSB, Myndigheten för samhällsskydd och beredskap, frá 2010.

Í frétt á vef Svenska Dagbladet segir að öflugustu skoteldarnir verði bannaðir innan Evrópusambandsins, ESB, eftir fimm ár. Ekki er útilokað að bannið verði sett á í Svíþjóð fyrir árið 2017, að sögn Ingemars Malmström, hjá MSB.

Á Íslandi er í gildi reglugerð nr. 952/2003 um skotelda. Í reglugerðinni er ekki getið um leyfilegt hámarksmagn sprengiefnis í skoteldum sem eru flokkaðir í fjóra flokka, allt frá skoteldum sem skapa litla hættu til öflugra skotelda. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um vopn, sprengiefni og skotelda þar sem vísað er í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins.

Ég veit að Bretar eru búnir að taka ákvörðun um að minnka leyfilegt hámarksmagn sprengiefna í flugeldum. Stærstu raketturnar sem eru á markaði hér eru í 250 g flokki, að ég held," segir Örn Árnason flugeldasali.

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×