Innlent

Of erfitt að hlaupa í miðbæ Reykjavíkur

bj skrifar
Borgaryfirvöld þurfa að vera tilbúin til að loka Lækjargötu til að skipuleggjendur Gamlárshlaups ÍR vilji hlaupa um miðborgina. Fréttablaðið/vilhelm
Borgaryfirvöld þurfa að vera tilbúin til að loka Lækjargötu til að skipuleggjendur Gamlárshlaups ÍR vilji hlaupa um miðborgina. Fréttablaðið/vilhelm
Skipuleggjendur Gamlárshlaups ÍR segja almenna ánægju með nýja hlaupaleið í iðnaðarhverfi borgarinnar, enda hafi verið erfitt að hlaupa í miðbænum. Þeir eru tilbúnir að endurskoða ákvörðun um að hætta að hlaupa í miðborginni fyrir hlaupið á næsta ári.

Hlaupið verður ræst í 37. skipti á hádegi á gamlársdag. Leið hlauparanna liggur frá Hörpu austur Sæbrautina og um iðnaðarhverfi við Sundahöfn. Þetta er annað árið sem þessi leið er farin, en áður var hlaupið frá Ráðhúsi Reykjavíkur, um Vesturbæinn og Seltjarnarnes. Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, er ósáttur við nýju leiðina og vill að hlaupið verði um miðborgina á ný.

„Við getum ekki skipulagt þetta hlaup í stríði við lögreglu, borgaryfirvöld og Strætó,“ segir Margrét Héðinsdóttir, formaður Frjálsíþróttadeildar ÍR. Gamla leiðin hafi verið ófær vegna óánægju bílstjóra með klukkustundarlokun gatna. Fyrir tveimur árum hafi verið ekið á tvo sjálfboðaliða sem áttu að loka götum.

„Borgaryfirvöld þurfa að vera tilbúin að loka Lækjargötu svo við getum hlaupið frá Hörpu og loka Hringbrautinni um tíma. Svo þarf að greiða kostnað við að fá lögreglu til að loka,“ segir Margrét. „Ef borgin er tilbúin til að koma að þessu og greiða kostnaðinn við að hafa hlaupið á þeim stað sem þeir vilja stendur ekki á okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×