„Það er eitthvað svo fyndið að vera í fýlu í skrýtnum aðstæðum,“ segir leikstjórinn Magnús Leifsson sem á heiðurinn af nýju myndbandi hljómsveitarinnar Hjaltalín við lagið Myself. Lagið er af plötunni Enter 4 og verður frumsýnt á morgun.
Í myndbandinu leika tveir ungir strákar, þeir Ólafur Ásgeirsson og Leroy Ciaprianne, vini þar sem annar er í mikilli fýlu og hinn leggur sig allan fram við að hressa hann við. Myndbandið á að lýsa hversu hallærislegt það getur verið að vera í fýlu í einkennilegum aðstæðum og byrjar á vandræðalegu faðmlagi milli vinanna. „Við erum að reyna að fanga óþægilega stemmingu eins og þegar maður faðmar einhvern sem hefur engan áhuga. Svo grófum við upp gamla hluti á borð við SPK-bol og risa partýpitsu frá Pizza 67,“ segir Magnús, en myndbandið var tekið upp á heimili foreldra hans.
Myndbandið sjálft var tekið upp á einum degi í byrjun desember og vinnslan tók um tvær vikur. „Þetta tók mjög stuttan tíma, svona í anda plötunnar sjálfrar sem kom út upp úr þurru í síðasta mánuði. Við vorum bara lítið tökulið sem djöflaðist í heilan dag og ég er sáttur við útkomuna.“
Ólafur er leiklistarnemi í Listaháskóla Íslands en leikstjórinn uppgötvaði Leroy á skemmtistaðnum Prikinu þar sem hann vinnur. „Mér fannst hann smellpassa í hlutverkið. Hann hefur skemmtilega útgeislun og einkennilegar hreyfingar.“
Magnús hefur verið iðinn í myndbandagerð undanfarið en hann leikstýrði einnig myndbandinu við lagið Glow með Retro Stefson sem hefur vakið athygli. Hann er einn af aðstandendum gamanþáttanna Steindi jr. sem runnu sitt skeið á dögunum. „Þetta var síðasta Steinda-serían en við erum allir eitthvað að plotta saman sem of snemmt er að tala um núna.“
Eins og fyrr segir verður myndbandið frumsýnt á morgun á vefsíðunni Berglind Festival.
Fyndið að vera í fýlu
alfrun@frettabladid.is skrifar
