Skoðun

Galdrafár á Grímsstöðum

Tryggvi Harðarson skrifar
Það var haustið 1977 sem ég kynntist Huang Nubo. Hann kom þá til náms í Peking-háskóla og varð herbergisfélagi Hjörleifs Sveinbjörnssonar en þeir bjuggu á næstu hæð fyrir neðan mig í byggingu 26. Þeir lögðu báðir stund á bókmenntir. Mikið umrót hafði átt sér stað í Kína í kjölfar dauða Maós árið 1976. Fjórmenningarnir svokölluðu voru reknir frá völdum og fangelsaðir en Hua Guofeng varð leiðtogi Kínverja um stund. Miklar breytingar voru gerðar á menntakerfinu og menningarbyltingunni formlega lýst lokið. Eitt af því sem breyttist var að frá og með árinu 1977 voru nemendur teknir inn í háskólana á grundvelli námsgetu, en ekki á pólitískum forsendum. Áður höfðu „bestu synir og dætur byltingarinnar“ verið handvalin úr hópi verkamanna, bænda og hermanna til að stunda háskólanám. Þannig var það hvorki námsgeta né færni sem réð því hverjir settust á háskólabekk. Huang var því í fyrsta hópi námsmanna eftir menningarbyltingu sem komu inn í háskólana á eigin verðleikum og námsgetu.

Næstum tvö árin áttum við Huang nánast dagleg samskipti. Hann var kappsamur námsmaður, ávallt kátur og hress og hvers manns hugljúfi. Hann var sérlega áhugasamur um blak og æfðum við stundum saman blakið, þó ég hafi haft meiri áhuga á öðrum íþróttum. Hann hefur alla tíð síðan stutt dyggilega við bakið á íþróttum og er annálaður fjallgöngumaður, eins og fram hefur komið. Hann var landsbyggðarmaður frá Ningxia, litlu héraði í Norðvestur-Kína. Hann heldur ávallt tengslum við sínar æskustöðvar og er formaður Viðskiptaráðs Ningxia í Peking og hýsir það í höfuðstöðum sínum. Annars staðar hefur verið greint frá því að hann varð ungur munaðarlaus. Árið 1980 útskrifaðist hann svo frá Pekingháskóla.

Upplýsingafulltrúi

Næstu 10 árin starfaði Huang í áróðursráðuneytinu kínverska og hefur það vakið sérstaka tortryggni hér á landi. Á þeim tíma var ástandið um margt líkt og á öndverðri 20. öldinni á Íslandi. Háskólamenntað fólk átti í engin hús að venda nema til ríkisins, enda störf fyrir háskólamenntað fólk á hinum frjálsa markaði nánast ekki til. Með því að gerast ríkisstarfsmaður var hann um leið orðinn starfsmaður kínverska Kommúnistaflokksins, en það voru allir sem unnu hjá hinu opinbera á þeim tíma. Áróður hefur fengið neikvæða merkingu á Vesturlöndum og því notum við orð eins og upplýsingaráðuneyti og upplýsingafulltrúar um nákvæmlega sama fyrirbærið og Huang starfaði við. Koma hugmyndum og ákvörðunum stjórnvalda til skila til almennings með jákvæðum hætti. Kínverjar kjósa hins vegar að tala um „propaganda“ eða áróður í því sambandi, þó eðlið sé hið sama og hjá upplýsingafulltrúum Vesturlanda. Síðan fór Huang að starfa fyrir samband borgarstjóra, sem hefur vafalaust nýst honum betur í viðskiptum en staða upplýsingafulltrúa í áróðursráðuneytinu. Þar hefur hann getað myndað tengslanet út um allt Kína. En þar líkt og hér þurfa menn að ávinna sér traust og virðingu svo slík sambönd nýtist sem skyldi.

Misjafn sauður í mörgu fé

Þótt margir virðast halda að flestir þeir sem gegna valdastöðum í Kína séu samansafn af illmennum og glæpamönnum fer því fjarri. Engu að síður er misjafn sauður í mörgu fé. Það á jafnt við um stjórnmálamenn í Kína, athafnamenn og aðra, líkt og hér á Vesturlöndum. Kínverjar eru nú taldir vera um 1.300 til 1.400 milljónir eða álíka margir og allir íbúar Evrópu, að Rússlandi meðtöldu, að viðbættum öllum íbúum Norður Ameríku. Hversu oft hefur maður ekki heyrt að Kínverjar séu svona og svona út frá fréttum um glæpi og spillingu, en ég efa stórlega að tíðnin sé meiri en við þekkjum í okkar heimshluta, þ.e. Evrópu og N-Ameríku til samans. Hins vegar deilist slík óáran á fjöldamörg ríki í okkar heimshluta. Ekki dettur okkur í hug að setja alla Vesturlandabúa á sakamannabekk þó glæpagengi vaði uppi í okkar heimshluta, hvort sem það heitir mafían á Ítalíu, Rússlandi eða Bandaríkjunum, eiturlyfjabarónar í Mexíkó, eða bara vélhjólagengi á Íslandi. Við skulum bara vera ánægð með að vera ekki úthrópaðir glæpamenn þar til annað sannast.

Viðskiptajöfurinn

Árið 1995 hóf Huang viðskipti í alvöru með stofnun Zhongkun Group sem fasteignafélags. Síðan þá hefur honum græðst óhemju fé, enda gríðarlegur efnahagslegur uppgangur í Kína. Auðvitað veit ég ekki í smáatriðum hvernig hans viðskipti hafa gengið fyrir sig, en ég veit að verð lóða og fasteigna í Kína hefur margfaldast á síðustu árum og áratugum. Þeir sem fjárfestu á réttum tíma, á réttum stöðum og í réttum hlutum hafa grætt mikið – og meira en við Íslendingar eigum að venjast þó við köllum ekki allt ömmu okkar í þeim efnum. Við skulum ekki gleyma því – þó að margir séu enn uppteknir af því hvernig sumir okkar athafnamanna hegðuðu sér fyrir hrun og bjuggu til loftbólupeninga – þá voru ýmis ágæt íslensk fyrirtæki sem byggðu styrk sinn á raunverulegri verðmætasköpun og nægir þar að nefna Marel, Össur og CCP. Ekki viljum við að þau fyrirtæki verði dæmd úr leik á alþjóðavettvangi vegna þess eins að útlendingar töpuðu milljörðum á milljarða ofan á viðskiptum við íslenska ævintýramenn. Ekki viljum við, hinir almennu Íslendingar, láta bendla okkur við útrásarvíkingana, þó þeir hafi verið landar okkar. Sama má segja um grandvara Kínverja; þeir vilja ekki láta dæma sig af gerðum þeirra Kínverja sem kunna að hafa svindlað, logið og stolið.

Umhverfissinninn

Hin síðari ári hefur Huang Nubo æ meira látið til sín taka í umhverfismálum. Kínverjar standa frammi fyrir gífurlegum umhverfisvanda og sífellt fleiri þeirra gera sér grein fyrir því og krefjast úrbóta og umhverfisvænni lausna fyrir fólk og fyrirtæki. Huang hefur þannig lagt sig sérstaklega eftir umhverfisvænni ferðaþjónustu. Við sem áttum þess kost að kynnast gamla Kína, þegar Maó var enn lifandi og margar gamlar konur enn með reyrða fætur, höfum mörg hver haft áhyggjur af því hvernig nýtísku stórhýsi hafa rutt gömlum húsum og heilu hverfunum úr vegi. Auðvitað verður ekki allt varðveitt, en Huang hefur sérstaklega lagt sig eftir því að varðveita brot af fortíð Kínverja. Þannig tók hann þorpið Hong í Gulufjöllum í Anhui-héraði undir sinn verndarvæng, lagfærði og endurbyggði í upprunalegri mynd og rekur þar nú myndarlega ferðaþjónustu. Þorpið er komið á heimsminjaskrá fyrir vikið. Svo er fólk hér upp á Íslandi sem telur sig umkomið að fullyrða að allt sem Huang segir og allt sem hann gerir sé gert af annarlegum hvötum. Er það ekki sjúklegt?

Sjúklega umræðan

Fyrst ég er farinn að ræða um hið sjúklega get ég ekki látið hjá líða að minnast á hina sjúklegu umræðu um að Huang hafi, á ráðstefnu í Shanghai, látið þau orð falla að Íslendingar væru sjúk þjóð. Þó um það megi deila þá myndi Huang aldrei láta sér slíkt um munn fara. Hann talaði þar um veikt efnahagslíf Íslendinga í kjölfar hrunsins og þegar fréttir af því bárust til Íslands var sagan orðin sú að hann hafi verið að tala um sjúka þjóð, okkur Íslendinga. Hvernig svona brenglaður fréttaflutningur fer á flot er mér um megn að skilja, nema ef vera skyldi fákunnátta á kínverskri tungu, eða að þar hafi búið að baki einber illvilji og vísvitandi lygi, sem ég á bágt með að trúa.

Eignarhald eða leiga

Í fyrstu risu margir upp vegna þess að Huang gerði tilboð í jörðina Grímsstaði með það fyrir augum að kaupa hana og byggja þar upp ferðaþjónustu. Það helgaðist af því að jörðin var til sölu en ekki leigu. Þróuðust mál þannig að nokkur sveitarfélög á Norðurlandi tóku sig saman með það fyrir augum að kaupa jörðina og leigja hana síðan undir ferðaþjónustu á vegum Huangs og koma jörðinni þannig úr einkaeign í samfélagslega eign. Þá ber svo við að engu máli skipti hvort um var að ræða sölu eða leigu í munni sumra, Kínverjar væru samt sem áður að sölsa undir sig Ísland. Þó eignarhaldið væri með þessu móti komið í eigu opinberra aðila, þá væru sveitarstjórnarmenn fyrir norðan slíkar lyddur og aumingjar að þeim væri ekki treystandi til að fara með eignarhaldið andspænis væntanlegum leigutaka sínum. Sveitarstjórnarmenn hafa þurft á stundum að láta ýmislegt yfir sig ganga, en mér blöskrar á tíðum hvernig talað er um það fólk sem í sveita síns andlitis er að reyna að byggja upp og reka gott og heilbrigt samfélag. Menn eru í reynd sakaðir um spillingu, mútuþægni og/eða aulahátt án þess að hafa nokkuð til þess unnið.

Fólkvangur og ferðaþjónusta

Í þeim samningsdrögum sem fyrir liggja milli nokkurra sveitarfélaga fyrir norðan og Huangs er gert ráð fyrir að aðeins um 1% jarðarinnar Grímsstaða fari undir fyrirhugaða ferðaþjónustu á svæðinu, eða 300 hektarar af rúmlega 30.000 hekturum. Sveitarfélögin muni eignast rúm 70% af jörðinni, ríkið á þegar 25% og einstaklingar eiga nokkur prósent áfram. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki Huangs, Zhongkun Grímsstaðir, leigi til tiltekins tíma land sveitarfélaganna og greiði leiguna fyrir fram. Þannig verður áhætta sveitarfélaganna nánast engin, en jörðin yrði þá komin í yfir 95% opinbera eigu. Þá er stefnt að því að stór hluti jarðarinnar, sé það vilji ríkisins, fari undir Vatnajökulsþjóðgarð, en restin að mestu leyti undir fólkvang sem yrði opinn almenningi.

Þvættingur og ósannindi

Fullyrðingar um að leigjanda sé heimilt að nýta allt það sem finnst í jörð er að sjálfsögðu tómur þvættingur og ósannindi. Sérstaklega er tekið fram að nýting á vatni, heitu og köldu, og hugsanlegum jarðefnum, er aðeins heimiluð til starfseminnar á staðnum, eins og gengur og gerist með bújarðir. Notkun umfram það og sala til þriðja aðila er óheimil, nema að fengnu leyfi sveitarfélaga og ríkisstofnana eins og lög gera ráð fyrir. Áform Huang um að gera stærstan hluta jarðarinnar að fólkvangi takmarkar enn frekar alla nýtingu jarðefna á svæðinu. Enda gengi það þvert á hagsmuni fyrirhugaðrar starfsemi að spilla landinu sem er forsendan fyrir umhverfisvænni ferðaþjónustu á svæðinu. Sérstaklega er tekið fram í samningsdrögunum að leigutaki skuldbindi sig til að standa að verndun og viðhaldi náttúrunnar í samráði við sveitarfélögin, aðra eigendur landsins og skipulagsyfirvöld. Það er með ólíkindum hvernig sumum tekst að snúa öllu á hvolf og rangfæra allt sem að málinu snýr. Það fólk á eitthvað bágt.

Útlendingaótti

Frá því að ég man eftir mér hefur óttinn við útlendinga hjá sumum Íslendingum verið landlægur. Ég man gjörla þegar ákvörðun um að reisa álverið í Straumsvík olli miklum deilum á Íslandi fyrir hartnær hálfri öld síðan. Ákveðnir aðilar héldu því fram, að með því að leyfa erlenda fjárfestingu í stóriðju á Íslandi, væri efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar stefnt í voða. Síðan eru liðin mörg ár og verksmiðjan hefur malað okkur gull og skapað fjölda fólks lífsviðurværi, þó á ýmsu hafi gengið í upphafi. Fyrst voru það Svisslendingar sem áttu verksmiðjuna, en eignarhaldið hefur breyst í tímans rás. Fyrirtækið heldur hins vegar sínu striki og er stjórnað af Íslendingum af myndarskap. Menn eru fyrir löngu hættir að líta á það sem erlent fyrirtæki og efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar glataðist ekki.

Skömmu síðar gengu Íslendingar inn í fríverslunarsambandið EFTA. Þá var uppi sama sagan hjá sömu aðilum og harðast börðust gegn því að álverið yrði reist. Efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar væri stefnt í voða og inngangan myndi ganga af íslenskum framleiðslufyrirtækjum dauðum. Það reyndist hins vegar alrangt og inngangan í EFTA nú almennt talin eitt mesta gæfuspor síðustu aldar í íslensku efnahagslífi.

Þátttakan í EES olli álíka fárviðri og fordómum. Enn eina ferðina boðuðu sömu aðilar, enn og aftur, að nú væri efnahagslegu forræði þjóðarinnar endanlega á glæ kastað. Enn höfðu sömu aðilar alrangt fyrir sér. Reyndar var varla þornuð undirskriftin á samningnum, þegar helstu andstæðingar hans voru farnir að halda því fram að EES-samningurinn væri svo góður og tryggði svo vel efnahagslega hagsmuni Íslands, að nú væri engin ástæða til að ganga í Evrópusambandið og þar við situr.

Í öllum þessum tilvikum og mörgum fleiri hefur kveðið við sami söngurinn. Efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar væri stefnt í voða og heimskapítalisminn að taka yfir – og þeir sem stóðu að þessum framfaraskerfum í íslensku efnahagslífi voru sakaðir um landráð. En nú er það heimskommúnisminn sem ætlar að taka Ísland í gíslingu með fjárfestingu eins Kínverja í ferðaþjónustu. Hvar endar þetta?

Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður…

Grunninn að farsælum samskiptum manna á milli og þjóða á milli má finna í einni setningu í Biblíunni: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Þannig geta Íslendingar ekki vænst þess að þeir séu boðnir velkomnir að fjárfesta í öðrum löndum, meðan þeir hafna útlendingum að fjárfesta á Íslandi. Sem betur fer hafa Íslendingar og íslensk fyrirtæki átt þess kost að fjárfesta og starfrækja fyrirtæki sín í útlöndum. Þar má nefna nokkur burðarfyrirtæki íslensk eins og Össur, Marel og CCP, sem eru með dótturfélög og starfsemi úti um allan heim. Þessi alþjóðlegu fyrirtæki hefðu aldrei náð að dafna nema fyrir það að þau eru velkomin út á hinn alþjóðlega markað. Öll þessi fyrirtæki eru með framleiðslu og/eða starfstöðvar í Kína. Er ekki eðlilegt og sjálfsagt að réttur fyrirtækja til að stunda atvinnustarfsemi sé gagnkvæmur á milli landa?

Ríkidæmi

Mörgum finnst með ólíkindum hversu ríkur Huang Nubo hefur orðið á til að gera stuttum tíma. Hann er þar í allstórum hópi milljarðamæringa, sem hafa efnast vel í Kína. Sjálfur hefur hann lýst áhyggjum sínum af misskiptingu auðsins í Kína í samtali við Spiegel, enda lætur hann um sex hundruð milljónir króna af hendi rakna árlega til ýmiss konar samfélagsverkefna. Tvennt er það sem hefur einkum valdið því að margir hafa orðið ríkir í Kína síðustu áratugina. Gríðarlegur uppgangur efnahagslífsins, samhliða hinum geysistóra heimamarkaði, sem nemur hátt í einum og hálfum milljarði einstaklinga. Kínverji, sem tekst að græða eina krónu á hvern landsmann, verður þannig milljarðamæringur á meðan Íslendingurinn sem græddi krónu af hverjum Íslendingi fengi skitnar 300 þúsund krónur í vasann. En þar sem þjóðarframleiðsla Íslendinga er um 4 sinnum meiri en Kínverja skulum við reikna með að Íslendingurinn græði 4 krónur á hverjum landa sínum. Samt fengi hann aðeins rúma milljón í vasann.

Á lista Forbes kemur fram að um 400 Kínverjar eða einn af hverjum þremur milljónum eru taldir eiga um eða yfir 60 milljarða króna. Það þýðir hlutfallslega að um 1/10 hluti Íslendings myndi fylla þann hóp. Huang er númer 115 á umræddum lista og eignir hans taldar að verðmæti yfir 120 milljarðar króna sem myndi þó ekki duga til að komast inn á lista Forbes yfir 400 ríkustu Bandaríkjamenn. Svo eru einstaklingar hér uppi á Íslandi, sem telja að fyrirhuguð leiga á Grímsstöðum sé til þess eins að ljúga út úr kínverskum bönkum hugsanlega nokkur hundruð milljónir. Er fólk ekki í lagi?

Eru Kínverjar að yfirtaka heiminn?

Kínverjar, sem eru um 20% mannkyns, eru farnir að láta til sín taka á alþjóðavettvangi í meira mæli en áður. En eru þeir að yfirtaka heiminn?

Eins og fram kom í stuttum pistli frá Gunnari Smára um daginn eru Kínverjar með um 3% af erlendri fjárfestingu í heiminum, meðan Evrópa og Bandaríkin eru með vel yfir 60%. Og Kínverjar eru taldir vera að gleypa heiminn! Viðskipti þeirra við þriðja heiminn hafa sumir talið vera ákaflega viðsjárverð. Þeir taki að sér að byggja upp grunngerð fátækra samfélaga í tengslum við viðskipti, svo sem vegi og sjúkrahús. Væntanlega kemur það viðkomandi þjóðum að góðu gagni. Minnir þetta á stuðning Bandaríkjanna við Íslendinga við stríðslok, þegar þeir byggðu Reykjanesbrautina, Kanaveginn, og hjálpuðu Íslendingum við að reisa Sogsvirkjanir í gegnum Marshall-aðstoðina.

Eftir aldalanga kúgun og undirokun Vesturlanda í Afríku þarf ekki að undra að ýmsir þar séu lítt hrifnir af samskiptum við sínar gömlu herraþjóðir. Þar hafa viðskipti Vesturlanda byggt á aðgangi að auðlindum þessarar fátæku álfu. Oftar en ekki hefur verið greitt fyrir hann með vopnum, beint eða óbeint í þágu vopnaframleiðslu Vesturlanda, og leitt til vargaldar milli þjóða eða þjóðarbrota í Afríku með hörmulegum afleiðingum.

Fordómar og fávísi

Fordómar og fávísi hafa alla tíð verið verstu óvinir mannkyns. Huang vinur minn hefur óþægilega orðið fyrir barðinu á þeim að ósekju. Honum jafnvel líkt við Dr. No úr samnefndri Bond-mynd, sem frumsýnd var fyrir hálfri öld síðan og verið var að sýna á Skjá einum nú um daginn. Og reynt er að gera alla þá sem vinna fyrir Huang tortryggilega, eða eins og nú er í tísku að segja, að hjóla í manninn en ekki boltann. Það er heldur ógeðfellt, en segir meira um þá sem fara með rógburð og fleipur en þá sem fyrir verða. Í síðustu viku var rætt við Lindu Jakobsson, sérfræðing í málefnum Kína hjá sænsku friðarrannsóknarstofnuninni SIPRI, og taldi hún enga ástæðu til að efast um heilindi Huang og áhuga fyrir að fjárfesta í ferðaþjónustu. Hvort skyldi nú vera meira mark takandi á sérfræðingi frá virtri friðarrannsóknarstofnun í Svíþjóð eða einhverjum bloggurum úti í bæ sem láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur?

Huang hefur hvarvetna getið sér gott orð og verið treyst fyrir margvíslegum trúnaðarstörfum. Látum því ekki fordóma og fávísi villa okkur sýn. Tökum góðum mönnum fagnandi, sem eru tilbúnir að fjárfesta á Íslandi og byggja upp betra og öflugra samfélag í samvinnu við okkur, öllum til hagsbóta. Tökum þátt í gagnkvæmum viðskiptum við þjóðir heims á jafnréttisgrundvelli, fátækar og ríkar, smáar og stórar, í stað þess að berja okkur á brjóst og þakka guði fyrir að vera ekki eins og þeir.

Kirkja hafsins

Að lokum vil ég birta brot úr metsölubókinni Kirkju hafsins eftir Ildefonso Falcones – fyrir þá sem ekki hafa fengið nóg. Hún gerist á tíma spænska rannsóknarréttarins og lýsir fávísi og fordómum þess tíma. Vonandi erum við betur upplýst í dag. Gríp ég niður í kafla þar sem söguhetjan Arnau er að ræða við gyðingastelpu sem forlögin hafa leitt saman.

„Þegar Jucef skildi þau ein eftir ræddu Arnau og Raquel oft saman í litla bakgarðinum. Þau töluðu ekki um stríðið. Arnau sagði henni frá lífi sínu sem eyrarkarl og frá Maríukirkjunni.

- Við trúum því ekki að Jesús Kristur sé Messías. Hann er ekki enn þá kominn og gyðingar bíða komu hans, sagði Raquel honum einu sinni.

- Þeir segja að þið hafið drepið hann.

- Það er ekki satt! svaraði hún sárreið. Við erum þau sem alltaf hafa verið drepin og rekin á brott þar sem við búum!

- Sagt er, hélt Arnau áfram, að það sé þáttur í helgisiðum ykkar á páskum að fórna kristnu barni og borða úr því hjartað og útlimina.

Raquel hristi höfuðið.

- Þetta er algjör þvæla! Þú hefur sjálfur séð að við borðum ekkert kjöt sem ekki er kosher og trú okkar bannar okkur að drekka blóð. Hvað ættum við að gera við hjarta úr barni, handleggi þess og fótleggi? Þú þekkir föður minn og föður Saúls. Getur þú ímyndað þér þá borða hjarta út barni?

- Hvað með oblátuna? spurði hann; það er einnig sagt að þið stelið oblátum til að pynta þær og endurupplifa þjáningar Jesú Krists.

Raquel vísaði þessu á bug með því að banda frá sér höndunum.

- Við Gyðingar trúum ekki á eðlisbreytinguna. Fyrir ykkur táknar oblátan Jesú Krist raunverulega líkama Krists. Við trúum ekki á þetta. Fyrir gyðingum er oblátan ykkar ekki annað en brauðbiti. Það væri frekar fáránlegt af okkur að pynta venjulegan brauðbita.

- Svo ekkert af því sem þið eruð sökuð um er satt?

- Ekkert.“




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×