Innlent

Tilkynnt um níðinginn 2003

SH skrifar
Lögreglu barst tilkynning árið 2003 um brot manns sem á fimmtudag var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir barnaníð. Hann var ekki handtekinn fyrr en sjö árum síðar.

Þetta kemur fram í dómnum yfir manninum, sem var fundinn sekur um að hafa níðst með grófum hætti á dreng og stúlku um árabil. Brotin gegn drengnum stóðu meðal annars frá árinu 2006 til 2010.

Í dómnum segir að stúlkan hafi greint vinkonu sinni frá ofbeldinu árið 2003 og hún í kjölfarið tilkynnt manninn til lögreglu.

„Eftir að hún tilkynnti þetta til lögreglu kvað hún brotaþola hafa verið mjög hræddan og ekki haft við sig samskipti í eitt og hálft ár," segir enn fremur í dómnum.

Önnur vinkona stúlkunnar gaf skýrslu í dómsmálinu og staðfesti að leitað hefði verið til lögreglu á þessum tíma. Lögreglumenn hefðu tekið ítarlegar skýrslur af báðum vinkonunum.

Stúlkan sem brotið var á var spurð um þetta fyrir dómi. Hún kom af fjöllum og hafði ekki hugmynd um að vinkonur hennar hefðu tilkynnt manninn til lögreglu á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×