Innlent

Bætur og vín hækka

Kolbeinn skrifar
Bandormurinn svokallaði var á dagskrá Alþingis í gær. Um er að ræða þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst fara í til að afla ríkissjóði tekna. Frumvarpið er í raun tekjuöflunarhlið fjárlagafrumvarpsins, en umræða um það stóð langt fram á kvöld í gær.

Bandorminum má skipta í fjóra meginflokka. Í fyrsta lagi eru það tekjuöflunaraðgerðirnar sem eiga að skila 8,3 milljörðum. Að auki mun fjármálaráðherra leggja til sérfrumvarp um endurskoðun á vörugjöldum sem skila á 800 milljónum króna.

Þá má nefna breytingar sem viðhalda tekjum ríkissjóðs eða lækka. Þar ber hæst umhverfis- og auðlindaskatta sem skila eiga 5,9 milljörðum á næsta ári. Á móti kemur að 100 prósenta endurgreiðsla virðisaukaskatts af viðhaldi verður framlengd um eitt ár og við það tapar ríkissjóður 1,5 milljörðum króna.

Barnabætur verða hækkaðar og kostar það ríkissjóð 2,5 milljarða króna á ári. Þá verður sérstök 30 prósenta hækkun á vaxtabótum framlengd um eitt ár, en það kostar 2 milljarða króna.

Í þriðja lagi má nefna breytingar í tengslum við kjarasamninga, en þar ber hæst lækkun atvinnuleysistryggingagjalds um 0,4 prósent, en það rýrir tekjur ríkissjóðs um 3,9 milljarða.

Í fjórða lagi eru það svo hækkanir á krónutölusköttum og gjaldskrám, svo sem bensíngjaldi, olíugjaldi, bifreiðagjaldi, gjaldi á áfengi, gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×