Lífið

Líkamsræktarátakið varð að nýju snjallsímaforriti

Kinwins Hugmyndin að snjallsímaforriti Sesselju og Valgerðar kviknaði í líkamsræktarátaki.
Kinwins Hugmyndin að snjallsímaforriti Sesselju og Valgerðar kviknaði í líkamsræktarátaki.
„Þetta byrjaði með því að við Valgerður fórum í líkamsræktarátak okkar á milli,“ segir Sesselja Vilhjálmsdóttir sem ásamt Valgerði Halldórsdóttur hefur hannað snjallsímaforritið Kinwins.

Kinwins er hvatningarleikur sem gengur út á að gera notendur sína að betri mönnum og stuðla að heilbrigðu líferni. Notandinn skráir inn dagleg verkefni og safnar stigum. Hægt er svo að deila verkefnunum með vinum og fjölskyldu og hvetja hver annan áfram.

„Þetta er á sama tíma samfélagsmiðill þar sem hægt er að tengjast fjölskyldu og vinum en einnig er hægt að hafa þessar upplýsingar fyrir sig og keppast um að ná betri árangri,“ segir Sesselja en rúmt ár hefur tekið að þróa leikinn sem iPhone-notendur geta núna hlaðið frítt niður í símana sína.

Í framtíðinni er svo markmið Kinwins að notendur þess geti nálgast ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um sínar hverdagslegu athafnir og séð hvað má betur fara í átt að heilbrigðara lífi og aukinni vellíðan. Sesselja og Valgerður gerðu fyrir nokkru síðan frumkvöðlaheimildarmyndina The Startup Kids og hönnuðu borðspilið Heilaspuna.

Þær voru langt komnar með Facebook-leik byggðan á Heilaspuna þegar hugmyndin að Kinwins kom upp. En þarf maður ekki að búa yfir mikilli tölvufærni til að búa til smáforrit? „Við erum báðar mjög tölvuvænar og getum bjargað okkur en í þessu verkefni fengum við forritunarteymi til liðs við okkur,“ segir Sesselja en verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði.

Sesselja og Valgerður stefna svo á að markaðssetja leikinn á heimsvísu á næstunni enda telja þær að leikurinn eigi erindi við alla. „Við erum tilbúnar með markaðsefni á heimsvísu og bíðum bara eftir grænu ljósi að utan. Kinwins snýst um að fá yfirsýn og kortleggja líf sitt og á sama tíma auka hæfileika sína. Það hlýtur að eiga erindi við alla.“ Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á Kinwins.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.