Innlent

Áverkar í munni ógna velferð hrossa

Eitt hross drapst af slysförum í hesthúsi á mótssvæðinu í Víðidal í sumar.
Eitt hross drapst af slysförum í hesthúsi á mótssvæðinu í Víðidal í sumar. Fréttablaðið/Anton
Áverkar í munni eru helsta ógnin við velferð keppnishrossa, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matvælastofnunar (Mast). Skýrslan nefnist „Klár í keppni 2012“ en í henni er fjallað um heilbrigðisskoðanir keppnis- og sýningarhrossa á Landsmóti hestamanna og Íslandsmóti í hestaíþróttum á þessu ári.

Mast hvetur til þess að samtök hestamennskunnar marki langtímastefnu til úrbóta, en fram kemur í skýrslunni að nokkuð hafi verið um að hestar væru með áverka bæði í munnvikum og yfir kjálkabeini, jafnvel báðum megin. „Áverkar í munni keppnishesta eru ekki vandamál einstakra knapa. Fremur má segja að það séu aðeins einstaka knapar sem nái því að komast langt í keppni án þess að það skilji eftir sig særindi í munni hestsins,“ segir í skýrslunni. Þá segir að knapar sem nái því marki eigi það sammerkt að nota mél með tunguboga afar sparlega. Meðal tillagna að úrbótum í skýrslunni er að banna slík mél. Þá hafi margir knapar sem mættu til leiks með alvarlega munnsára hesta ekki verið vel meðvitaðir um ástandið.

Fram kemur í skýrslu Mast að tíðni alvarlegra áverka hafi verið hærri á Íslandsmótinu en Landsmótinu.

-óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×