Skoðun

Kaflaskil í norrænni samvinnu

Gunnar Alexander Ólafsson og Elvar Örn Arason skrifar
Á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs var upplýst að Svíþjóð og Finnland myndu taka þátt í sameiginlegu loftrýmiseftirliti Norðurlanda á Íslandi. Loftrýmiseftirlit flugherja Norðurlanda er ein tillaga af mörgum um nánara samstarf á sviði öryggis- og varnarmál sem fram kom í skýrslu sem kennd er við Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs. Hann samdi skýrslu árið 2009 fyrir utanríkisráðherra Norðurlandanna um norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum. Í skýrslunni voru settar fram þrettán tillögur sem miða að því að efla norrænt samstarf í ofangreindum málum.

Tillaga Stoltenbergs um norrænt loftrýmiseftirlit yfir Íslandi sem ákveðið hefur verið að hrinda í framkvæmd er frumleg og ögrandi, þar sem hvorki Finnar né Svíar eiga aðild að NATO. Að okkar mati er þessi ákvörðun fyrsta skrefið í jákvæðari þróun, þ.e. þeirri að Norðurlandaríkin taki smám saman að sér stærra hlutverk varðandi öryggis- og varnarmál innan Norðurlanda. Í þessu sambandi er athyglisvert að bæði Finnland og Svíþjóð eru hlutlaus ríki og bæði aðildarríki ESB, en þátttaka þeirra í öryggis- og varnarsamstarfi er byggð á grundvelli norrænnar samvinnu. Ákvörðunin um loftrýmiseftirlitið yfir Íslandi tvinnar því saman hagsmuni Norðurlandaríkja, NATO og stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum.

Aukið samstarf Norðurlandaríkjanna á þessu sviði mun efla öryggi á norðlægum slóðum.

Efling norræns samstarfs kæmi því til viðbótar því evrópska samstarfi og Evró-Atlantshafssamvinnu sem nú þegar á sér stað. Utanríkis-, öryggis- og varnarsamstarf ESB er í stöðugri þróun. Íslendingar geta skipað sér í sveit með öðrum norrænum ríkjum og Eystrasaltslöndunum innan þess.

Innganga Íslands í ESB ásamt nánara samstarfi Norðurlandaríkja á sviði öryggismála mun fylla það tómarúm sem skapaðist í kjölfar brotthvarfs Bandaríkjahers og minnkandi þátttöku Atlantshafsbandalagsins í öryggismálum á norðlægum slóðum.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×