Lífið

Alda er að deyja úr gelgju

Álfrún skrifar
Annalísa Hermannsdóttir hefur leikið í Pressu frá upphafi og er hlutverk hennar veigameira í nýju seríunni sem hefur göngu sína á morgun. Hún hefur einnig landað hlutverki í sinni fyrstu bíómynd, Vonarstræti. Fréttablaðið/valli
Annalísa Hermannsdóttir hefur leikið í Pressu frá upphafi og er hlutverk hennar veigameira í nýju seríunni sem hefur göngu sína á morgun. Hún hefur einnig landað hlutverki í sinni fyrstu bíómynd, Vonarstræti. Fréttablaðið/valli
„Þetta hefur verið ótrúlega skemmtileg vinna,“ segir hin fimmtán ára gamla Annalísa Hermannsdóttir. Hún leikur eitt af aðalhlutverkunum í sjónvarpsþáttunum Pressu en þriðja þáttaröðin fer í loftið á morgun.

Annalísa var tíu ára gömul þegar hún landaði hlutverki Öldu, dóttur blaðakonunnar Láru, í sjónvarpsþáttunum vinsælu. Annalísa var þá í Sönglist og ætlaði að verða söngkona en smitaðist af leiklistarbakteríunni í Pressu. Nú er hún staðráðin í að reyna frekar við leiklistina, en Annalísa fékk hlutverk í myndinni Vonarstræti sem tökur hefjast á eftir áramót. Þar mun hún leika á móti Þorvaldi Davíð Kristjánssyni og Heru Hilmarsdóttur.

„Þetta verður í fyrsta sinn sem ég leik í kvikmynd og það er mjög spennandi,“ segir leikkonan unga.

Annalísa er í 10. bekk í Garðaskóla og segir skólafélagana áhugasama um starf sitt. „Þeim finnst þetta spennandi, en þeir stríða mér líka smá. Eins og þegar ég pissaði á mig í síðustu seríu, þá fékk ég að heyra ýmislegt en það er bara fyndið.“

Hlutverk Önnulísu hefur vaxið með hverri seríunni. Í þessari þriðju þáttaröð er Alda í uppreisn og flækist inn í sakamál sem Lára móðir hennar er að rannsaka. „Ég má ekki segja of mikið, en Alda er að deyja úr gelgju og hefur flækst inn í slæman félagsskap í þessari seríu. Hún gerir móður sinni lífið leitt og er ekki á góðum stað í lífinu,“ segir Annalísa sem er bæði spennt og kvíðin fyrir frumsýningunni á morgun.

Annalísa ætlar að horfa á fyrsta þáttinn með fjölskyldu sinni og vinum. Hún segist orðin nokkuð sjóuð í að sjá sjálfan sig á skjánum. „Ég er búin að vera rosalega spennt og hef talið niður dagana í fyrsta þáttinn. Svo í vikunni byrjaði ég að verða smá kvíðin líka því í þessari seríu reynir meira á mig og leiklistarhæfileikana.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.