Innlent

Vilja friðlýsa 479 hektara lands

SHÁ skrifar
Sérstakar jarðmyndanir eru á þeim svæðum þar sem til stendur að friðlýsa.fréttablaðið/þök
Sérstakar jarðmyndanir eru á þeim svæðum þar sem til stendur að friðlýsa.fréttablaðið/þök
Umhverfisstofnun og bæjarstjórn Garðabæjar hafa auglýst tvær tillögur að friðlýsingu svæða innan marka Garðabæjar. Svæðin eru í eigu Garðabæjar, utan Vífilsstaðahrauns sem er í eigu ríkisins, og er samanlögð stærð þeirra 479,3 hektarar.

Lagt er til að eldstöðin Búrfell, hrauntröð hennar Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár ásamt nánasta umhverfi verði friðuð sem náttúruvætti. Svæðið er alls 323 hektarar. Verndargildi svæðisins byggir fyrst og fremst á jarðmyndunum frá nútíma sem hafa hátt vísinda-, fræðslu- og útivistargildi, auk gróðurfars. Innan svæðisins eru einnig fornminjar, svo sem Gjáarétt sem er í vesturenda Búrfellsgjár.

Þá er lagt til að fjögur svæði; Garðahraun neðra og efra, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar verði friðlýst sem fólkvangur, alls 156,3 hektarar.

Markmið friðlýsingarinnar er að stofna fólkvang; útivistarsvæði í þéttbýli, þar sem jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar, m.a. fornar rústir eru verndaðar. Með friðlýsingunni á að efla lífsgæði í sveitarfélaginu með því að tryggja möguleika til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu í náttúrulegu umhverfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×