Innlent

Yfir 90 prósenta verðmunur á dekkjaskiptum

IBS skrifar
Verðkönnun ASÍ leiddi í ljós talsverðan verðmun á umfelgun.fréttablaðið/pjetur
Verðkönnun ASÍ leiddi í ljós talsverðan verðmun á umfelgun.fréttablaðið/pjetur
Mestur verðmunur í verðkönnun ASÍ á 24 hjólbarðaverkstæðum síðastliðinn mánudag var á þjónustu vegna dekkjaskipta á jeppa. Þjónusta vegna dekkjaskipta á Mitsubishi-jeppa með 18 tommu stálfelgum var ódýrust hjá Nýbarða, þar sem hún kostaði 7.000 krónur, en dýrust hjá Sólningu, þar sem hún kostaði 13.398 krónur. Verðmunurinn var 6.398 krónur, eða 91 prósent.

Fyrir álfelgu af sömu stærð er þjónustan ódýrust hjá Dekkverk og Nýbarða á 7.500 krónur en dýrust á 13.398 krónur hjá Sólningu. Verðmunurinn var 5.898 krónur, eða 79 prósent.

Minnstur verðmunur var á þjónustu við dekkjaskipti undir smábíl og minni meðalbíl á 14 og 15 tommu álfelgu. Hún var ódýrust hjá VDO – Borgardekkjum, þar sem hún kostaði 5.490 krónur, en dýrust á 7.820 krónur hjá Öskju. Verðmunurinn var 2.330 krónur, eða 42 prósent. Fyrir stálfelgu af sömu stærð er þjónustan ódýrust á 5.390 krónur hjá Nýbarða en dýrust á 7.820 krónur hjá Öskju. Verðmunurinn er 2.430 krónur, eða 45 prósent.

Sex hjólbarðaverkstæði hafa hækkað hjá sér verðið við dekkjaskipti á meðalbíl með 16 tommu álfelgu frá því í október í fyrra. Mesta hækkunin var hjá KvikkFix, 34 prósent. Næstmesta hækkunin var hjá Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur, Bílabúð Benna og Nýbarða, 11 prósent. Verð þjónustunnar hefur lækkað hjá sex aðilum.

Mesta lækkunin var hjá Kletti, 20 prósent, hjá Sólningu var lækkunin 13 prósent en 12 prósent hjá Gúmmívinnslustofunni SP dekk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×