Innlent

Landvernd vill stöðva framkvæmdir

Landvernd telur framkvæmdirnar unnar „í gloppu“ skipulagslaga, en því mótmælir fyrirtækið. mynd/landvernd
Landvernd telur framkvæmdirnar unnar „í gloppu“ skipulagslaga, en því mótmælir fyrirtækið. mynd/landvernd
Stjórn Landverndar fer fram á að Landsvirkjun stöðvi strax framkvæmdir fyrirtækisins við Bjarnarflag þar sem fyrirhugað er að reisa 45 megavatta jarðvarmavirkjun. Nauðsynlegt sé að bíða þess að Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða hafi verið samþykkt á Alþingi. Einnig fer Landvernd fram á að nýtt umhverfismat vegna virkjunarinnar verði unnið enda sé það sem liggur fyrir að verða tíu ára gamalt.

Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, segir að framkvæmdirnar sem nú séu hafnar óafturkræfar og veki furðu þar sem framkvæmda-, virkjana-, og rekstrarleyfi liggi ekki fyrir. ?Það er verið að byrja á öfugum enda. Annað er að umhverfismatið sem fyrirtækið byggir á er tíu ára gamalt en síðan er komin mikil reynsla á jarðvarmavirkjanir hér á landi. Sú reynsla er ekki öll góð.?

Landsvirkjun hefur mótmælt því að óeðlilega sé staðið að framkvæmdum við Bjarnarflag. Á heimasíðu fyrirtækisins segir að um undirbúningsframkvæmdir sé að ræða. Fyrirtækið hafi sótt um framkvæmdaleyfi fyrir landmótun á stöðvarhússlóð fyrirhugaðrar virkjunar til sveitarfélagsins nýlega og fengið.

Álfheiður Ingadóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hefur boðað fulltrúa Landsvirkjunar, Landverndar og sveitarfélagsins til fundar. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×