Innlent

Flúði til skrifta undan málþófi

Ritið kemur út í dag.
Ritið kemur út í dag.
"Undanfarið ár hef ég nýtt lausan tíma, samhliða öðrum störfum, til að skrifa – til dæmis undir málþófi," segir Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sem í dag gefur út bókina Við stöndum á tímamótum. "Maður má reyndar ekki vera með tölvu inni í þingsal en það var ágætt að fara stundum inn í hliðarherbergin og skrifa."

Í bókinni fjallar Magnús um eigin sýn á pólitík, atvinnu- og efnahagsmál, stöðu Samfylkingarinnar og fleira. Meðal þeirra sjónarmiða sem hann lýsir er að markmiðið um milljón ferðamenn á ári á Íslandi sé misráðið og muni grafa undan tilvist ferðaþjónustunnar. Nær sé að stefna að því að færri ferðamenn eyði meiri peningum hér á landi.

En hvað rak þingmann til að gefa stefnu sína út á bók? "Ég taldi bara hyggilegt að setja þetta niður á blað svo fólk gæti áttað sig á því fyrir hvað ég stend. Bók er frábær vettvangur til að taka saman hvað maður er að hugsa og hjálpar manni sjálfum að móta hugmyndirnar og færa rök fyrir þeim."

Og heldur hann svona bók muni seljast? "Ég vona það, já. Ég reyndi að hafa þetta aðgengilegt og skýra út á mannamáli hvað ég væri að tala um." - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×