Skoðun

Sérstaða Íslands

Pétur Einarsson skrifar
Á þriðjudag kom út skýrsla sérfræðingahóps á vegum Evrópusambandsins sem segir að setja þurfi meiri takmarkanir á fjármálakerfið en gert er í núverandi reglum. Þannig á að koma í veg fyrir að kostnaður vegna hruns fjármálakerfis lendi á herðum almennings. Sú niðurstaða er í samræmi við skýrslur sem hafa verið gefnar út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þessar tillögur eru skref í rétta átt en engu að síður málamiðlun sem er gerð til að mæta sjónarmiðum stórra alþjóðlegra banka.

Reglusetning á Íslandi þarf að ganga lengra til að koma í veg fyrir að Íslendingar beri kostnað af áhættusækinni bankastarfsemi sem byggð er á innlánum almennings. Ef ákveðið er að skilja fjárfestingabankastarfsemi frá innlánastarfsemi er verið að lágmarka það tjón sem fellur á almenning við fjármálahrun. Fjárfestingabankastarfsemi er ekki stór á Íslandi í dag og því er aðskilnaður mögulegur og auðveldur. Lög um aðskilnað myndu einnig stuðla að virkari samkeppni á fjármálamarkaði. Þá rúmast slík löggjöf innan EES-samningsins og myndi sýna að Íslendingar hefðu lært af biturri reynslu sinni.

Íslensk stjórnvöld verða að átta sig á sérstöðu Íslands og aðskilja fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Í Gallup-könnun sem birt var í vikunni kemur fram að 80% landsmanna eru fylgjandi slíkri lagasetningu.




Skoðun

Sjá meira


×