Innlent

Vill standa vörð um starfið í HÍ

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir
Mikilvægt er að standa vörð um Háskóla Íslands (HÍ) þar sem hann sinnir kennslu í öllum greinum. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra í samtali við Fréttablaðið aðspurð um gagnrýni Ara Kristins Jónssonar, rektors Háskólans í Reykjavík (HR), vegna misræmis í niðurskurði í framlögum milli HR og ríkisháskólanna.

„Ef litið er á tölur um niðurskurð í framlögum til háskólanna sýna niðurstöðutölur að minna hefur verið skorið niður hjá HÍ, en á móti kemur að skólinn er bæði búinn að taka á sig önnur verkefni og nemendum þar hefur fjölgað langmest,“ segir Katrín.

Fram kom hjá Ara að 17,4 prósenta lækkun hefði orðið á framlögum til HR frá 2009, fært til núvirðis, fram að fjárlagafrumvarpi 2013. Niðurskurðurinn hjá HÍ hefði verið 0,7 prósent.

„Það má fara út í alls konar talnaleikfimi,“ segir Katrín, „en niðurskurðurinn á fjárlögum fyrir háskóla frá 2009 til 2012 er þrír milljarðar sem fara út úr kerfinu.“ Hún bætir því við að meðal þess sem HÍ hafi tekið á sig og hafi fylgt aukin framlög séu verkefni tengd aldarafmæli skólans auk þess sem fjölgun nemenda hafi verið langtum meiri í HÍ en öðrum skólum.

„Síðan er ekkert launungarmál að mér finnst mikilvægt að verja HÍ sem þann skóla sem sinnir kennslu í öllum greinum, og hafa framlög til hans þó verið skorin niður um tæpa 2,2 milljarða.“

Ari benti á það að HR skilaði flestum nemendum í tæknigreinum, sem væru afar eftirsóttir fyrir atvinnulífið. Engu að síður fengi skólinn minni fjárframlög á hvern nemanda en HÍ.

Katrín svarar því til að þetta megi skýra með því að framlög á hvern nemanda fari eftir námsgreinum, ekki skólum, og sé mikill munur þar á, allt frá 500.000 krónum á ári fyrir ódýrustu nemendurna upp í 2,6 milljónir fyrir tannlæknanema. Þannig fylgi verkfræðinemanda sama framlag í HR og HÍ.

„Stóri punkturinn í þessu öllu saman er að við höfum verið að skera niður í háskólakerfi sem var undirfjármagnað fyrir. Ef við berum okkur saman við OECD-löndin erum við undir meðaltali í framlögum á hvern nema og það er staðreynd sem virðist stundum gleymast.

HR hefur unnið mjög gott starf og hefur átt stóran hlut í að efla gæði menntunar. En ég held að áhersla allra skóla ætti að vera á að efla háskólastigið í heild.“

thorgils@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.