Skoðun

Leiðréttingarsjóður íslenskra námsmanna

Samkvæmt Vísindavefnum segir: ?Afleiður eru mjög víður flokkur verðbréfa sem öll hafa það sameiginlegt að greiðsluskylda útgefanda og þar með verðmæti afleiðanna fer eftir verðþróun annarrar eignar (hugsanlega margra). Nafnið vísar því til þess að verðmæti afleiðanna leiðir af verðþróun annarra eigna.? Enn fremur segir: ?Því eru lítil takmörk sett á hverju afleiður geta byggt. Undirliggjandi eignir þurfa til dæmis ekki að vera fjármálaeignir? ? Samkvæmt Wikipedia, frjálsa alfræðiritinu segir: ?Afleiða í viðskiptum er samningur eða fjármálagerningur þar sem undirliggjandi verðmæti þeirra fer eftir verðþróun annarrar eignar eða eigna. Nafnið vísar því til þess að verðmæti verðbréfsins er leitt af verðþróun annarra eigna. Því eru lítil takmörk sett á hverju afleiður geta byggt. Sem dæmi má nefna hlutabréf, húsnæðislán, almenn lán, verðbréf, gjaldmiðla, hagvísitölur eða vextir banka.?

Mikil áhætta fyrir námsmenn

Þeir aðilar sem taka á sig áhættuna við að taka verðtryggð námslán eru námsmenn, sem eru almennir neytendur. LÍN tryggir sig gegn verðbólguskotum, slæmri hagstjórn, hækkun eldsneytisverðs, launaskriði, hrávöruverðshækkunum, skattahækkunum, fallandi gengi krónunnar o.s.frv. með útgáfu flókinna verðtryggðra námslána sem námsmenn sitja uppi með og hafa enga leið með að vita hver endanleg upphæð til greiðslu er. Samkvæmt Fjármálaeftirlitinu eru afleiður skilgreindar sem flóknar fjármálaafurðir og samkvæmt lögum nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti sem tóku gildi 1. nóv. 2007, og má eingöngu selja afleiður til viðurkenndra gagnaðila og fagfjárfesta. Almennir fjárfestar, þ.a.l. námsmenn, njóta sérstakrar verndar sem m.a. felst í því að þeim er óheimilt að taka þátt í flóknum fjármálagjörningum á borð við afleiðuviðskipti. Þess vegna er það mjög líklegt að verðtryggð námslán sem gefin hafa verið út til námsmanna eftir 1. nóv. 2007 séu ólögleg.

MiFID-reglurnar

1. nóvember 2007 var vísitala neysluverðs til verðtryggingar 278,1 stig, en er nú 391 stig. Vísitalan hefur því hækkað meira en 42,5% frá upptöku laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, svokallaðar MiFID-reglur. Verður því að leiðrétta öll verðtryggð námslán sem seld hafa verið eftir 1. nóv. sem því nemur, ef dómstólar komast að því hvort lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti hafa verið brotin. Námsmenn hafa engar forsendur til að meta þá áhættu, sem fylgir verðtryggðum námslánum og verður því að leiðrétta þetta. Stjórnmálahreyfingin Hægri grænir, flokkur fólksins ályktar svo að LÍN hafi blekkt þúsundir íslenskra námsmanna óafvitandi til þess að taka verðtryggð námslán frá 1. nóv. 2007, og ætlar flokkurinn að berjast fyrir fullri leiðréttingu á þessum verðtryggðu afleiðusamningum.

Lausnin á skuldavanda námsmanna

Flokkur fólksins, Hægri grænir, vill að LÍN innkalli öll verðtryggð námslán. Þetta er hægt að fjármagna með löngu láni frá Seðlabanka Íslands og í framhaldinu skuldbreyta þeim í óverðtryggð lán. Flokkurinn vill að LÍN bjóði lengstu óverðtryggðu lánin til 40 ára. Engar aðrar breytingar yrðu gerðar varðandi reglur um endurgreiðslu lánanna.

Betri stjórnsýsla nauðsynleg

Á Íslandi endurspegla greiðsluáætlanir ekki raunveruleikann, sér í lagi verðbólguskotið fyrir og eftir hrun. Með sanni má segja að LÍN hafi raskað hegðun námsmanna með því að gera lítið úr langtímaáhættu vegna verðbólgu. Verðtryggð námslán eru í rauninni svo flóknar afleiðutengdar fjármálaafurðir og er ómögulegt fyrir námsmenn að meta þau á fullnægjandi hátt. Verðtrygging námslána er mjög líklega ólögleg og stangast á við grundvallarreglur evrópskra neytendalaga sem banna misbeitingarákvæði sem raska jafnvægi samningsaðila neytanda í óhag. Það er löngu kominn tími til fyrir stjórnsýsluna og fjármálastofnanir að virða íslensk lög, þau eru ekki til skrauts. Vanþekking og afneitun á lögum, leysir engan undan ábyrgð. Frekari upplýsingar á www.XG.is




Skoðun

Sjá meira


×