Skoðun

Fjarlægðin gerir fjöllin blá

Eygló Harðardóttir skrifar
Síðastliðinn fimmtudag skrifaði Jón Steinsson mikla lofræðu um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í Fréttablaðið. Jóni svíður að stjórnvöld skuli ekki njóta sannmælis meðal íslensks almennings og tínir til ýmis atriði sem hann telur henni til tekna. Vissulega er rétt hjá Jóni að ríkisstjórnin er ekki alslæm og ýmislegt hefur áunnist við að reisa landið úr rústum fjármálahrunsins. En heldur þótti mér sérkennilegt að telja til afreka tvö af stærstu mistökum stjórnarinnar.

Í greininni hrósar Jón stjórnvöldum fyrir vel heppnaða einkavæðingu bankanna og að hafa ekki farið í almennar aðgerðir til hjálpar skuldugum heimilum. Einmitt í þessum tveimur atriðum greinir á milli stefnu stjórnvalda og þeirra leiða sem Framsóknarflokkurinn lagði til í kjölfar hrunsins.

Við lögðum til að við uppgjör milli gömlu og nýju bankanna yrði svigrúmið sem þar myndaðist nýtt til að fara í almennar leiðréttingar á lánum heimila og fyrirtækja. Með því yrði tryggt að jafnt yrði látið yfir alla ganga og þeir sem varlega fóru fengju aðstoð, ekki síður en þeir sem spenntu bogann of hátt fyrir hrun. Tekið yrði tillit til hugsanlegs ólögmætis gengistryggingarinnar við uppgjörið og kröfuhafar látnir taka ábyrgð á óvarlegum lánveitingum til bankanna.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hunsaði þetta allt. Andlitslausum vogunarsjóðum voru afhentar skuldir heimilanna til innheimtu og aðgangsharka þeirra hefur skilað bönkunum 200 milljarða hagnaði frá hruni. Jón heldur því fram að tillögur Framsóknarmanna hefðu ?verðlaunað þá sem fóru sér að voða fjárhagslega á árunum fyrir hrun á kostnað þeirra sem fóru varlegar?. Staðreyndin er sú að það er einmitt það sem núverandi stjórnvöld hafa gert.

Helstu úrlausnir á skuldavandanum hafa ekki komið frá ríkisstjórninni, heldur með þrautseigju einstaklinga fyrir dómstólum. Aðgerðir stjórnvalda hafa nánast verið eins og að spila í rússneskri rúllettu – hending ein hefur ráðið því hvort tegund láns, orðalag samninga, tímasetning eða veð hafa orðið til þess að fólk hafi fengið úrlausn sinna mála eða skilið eftir í skuldafjötrunum.

Í aðgerðum stjórnvalda hefur ekki falist nein sanngirni, réttlæti eða jöfnuður. Afleiðingin er að aldrei hafa fleiri Íslendingar verið á vanskilaskrá og aldrei fleiri í vanskilum við Íbúðalánasjóð.

Það er spurning hvort í orðum Jóns Steinssonar endurspeglist málshátturinn að fjarlægðin geri fjöllin blá og mennina mikla.




Skoðun

Sjá meira


×