Skoðun

Getum við ekki lyft umræðunni upp á hærra plan?

Ólafur Sigurðsson skrifar
Heilsustofnun NLFÍ (HNLFÍ) þjónustar um 1.700-2.000 Íslendinga á ári. Stofnunin er með þjónustusamning við ríkið, þar sem tiltekið er hvaða þjónustu eigi að veita og hvað greitt er fyrir. Okkur reiknast til að við veitum ríkinu mjög ódýra þjónustu. Við fullyrðum einnig að starf HNLFÍ hefur skilað þjóðfélaginu aftur því sem lagt er í það, með heilbrigðari einstaklingum. Hér var líka tekið til hendinni í kjölfar kreppunnar. Skorinn niður kostnaður frá 2009 um tæp 30%. Þrátt fyrir það hefur okkur verið hótað meiri niðurskurði nánast árlega.

Það er vont að vita af þessari hótun en verra að ekkert samráð er haft við forsvarsmenn HNLFÍ. Mikil leynd hvílir yfir öllu. Samtímis sjáum við margan forráðamann heilbrigðisfyrirtækja geysast fram á fjölmiðlavöllinn og lýsa slæmu ástandi í rekstri. Þá vitum við að nú er að hefjast baráttan um fjárlagarammann. Við vonum að þessi fjölmiðlasirkus villi mönnum ekki of mikið sýn.

Auðvitað bregður okkur þegar slíkur áróður byrjar, við höfum ekki fjölmiðlaráðgjafa.

Velferðarráðherra Samfylkingarinnar ásamt einum af fyrrum heilbrigðisráðherrum Vinstri grænna hótaði HNLFÍ miklum niðurskurði á árunum 2010 og 2011. Ráðherrarnir slógu samt í og úr. Á síðustu stundu náðist að draga núverandi ráðherra að samningaborðinu og úr varð samningur um áramótin síðustu.

Velferðarráðuneytið hefur einhliða vanefnt samninga á árunum 2009-2011, skorið niður fjárframlög sem nemur rúmlega 20% og tvisvar hótað okkur verulega meiri niðurskurði. HNLFÍ hefur því átt á brattann að sækja í viðskiptum við núverandi stjórnvöld. Gæti það verið vegna þess að við stöndum upp og svörum fyrir okkur þegar að okkur er sótt? Erum þó vanir því að verja okkar málstað af einurð, höfum þurft þess, og oftast haft rétt fyrir okkur.

Allt frá 1927 sögðu NLFÍ-menn að reykingar væru hættulegar. Lengi fram eftir 20. öldinni sögðu þeir að hreyfing og hollt mataræði væri nauðsyn. Nú er þetta allt orðið almenn sannindi. Í dag segjum við að skortur á forvörnum og endurhæfingu sé skaðlegur. Það er auðvitað rétt. Þessi skortur á eftir að kosta okkur mikla fjármuni. Kannski ekki á okkar tíð, sem erum á miðjum aldri, en þegar börnin okkar og barnabörnin fara að borga heilbrigðisþjónustuna munu þau stynja undan.

Ég hef ekki heyrt mikið rætt síðustu misserin hvernig velferðarráðherra sér heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar, sem við á HNLFÍ teljum okkur hluta af. Enn og aftur er verið að slökkva elda. Á fjórða ári eftir kreppu virðist ekki mikill áhugi á því að lyfta umræðunni um þennan mikilvæga lið á aðeins hærra plan. Ákvarðanir ríkisvaldsins um kaup á þjónustu eiga að byggja á góðri þekkingu á valmöguleikum, kostnaði og gæðum. Þannig fara stjórnvöld vel með almannafé.

Heilbrigðisþjónusta er ein af grunnþörfum okkar, við viljum ekki kasta til hendinni við hana. Heilbrigðiskerfið þarf stöðugleika og öryggi en ekki ákvarðanir sem eru teknar einn daginn og dregnar til baka þann næsta.

Þegar svo við heyrum að upplýsingar um heilbrigðismál séu illa aðgengilegar, skortur á upplýsingum fyrir þá sem um eiga að sýsla (sjá skýrslu Boston Consulting Group), þá bregður okkur. Þá spyr maður sig: Reka ráðamenn fingurinn upp í vindinn og taka ákvörðun? Nú skora ég á velferðarráðherra að hefja vinnu við að bæta úr þessu. Safna saman þeim upplýsingum sem hann þó hefur, og nota þær til að vinna, þó ekki nema grófa langtímaáætlun. Það er betra en ekkert.

Mín ráð til velferðarráðherra eru að sparnaði í heilbrigðiskerfinu til langs tíma verður ekki náð án þess að auka forvarnir og endurhæfingu. Slík fjárfesting skilar sér þó ekki á kjörtímabili stjórnmálamanna, hún er langtímasparnaður. Ráðherrann verður samt að muna eftir þessari mikilvægu þjónustu ef hann vill ná langtímasparnaði.

Berum ábyrgð á eigin heilsu.




Skoðun

Sjá meira


×